Svindlað á Nígeríumönnum í Rússlandi

Steve Davies Ugbah, sendiherra Nígeríu í Rússlandi, ræðir við hóp …
Steve Davies Ugbah, sendiherra Nígeríu í Rússlandi, ræðir við hóp nígerískra strandaglópa í Moskvu síðasta föstudag. AFP

Ríkisstjórn Nígeríu þarf að koma nokkrum fjölda nígerískra borgara aftur til landsins, en þeir urðu strandaglópar í Rússlandi eftir að hafa verið gabbaðir til þess að kaupa aðdáendaskílríki, svokölluð Fan-ID, sem gerðu þeim kleift að ferðast til Rússlands meðan á heimsmeistarakeppninni í fótbolta stóð.

Sumir einstaklinganna keyptu aðdáendaskílríkin, sem allir þeir sem áttu miða á leiki á HM í Rússlandi fengu send sér að kostnaðarlausu, dýru verði, á um 700 bandaríkjadali eða yfir 70.000 íslenskar krónur.

Þetta gerði einhver hluti fólksins í þeirri trú að skílríkin, sem giltu sem tímabundin vegabréfsáritun á meðan HM stóð yfir, veittu þeim tækifæri til þess að verða sér úti um vinnu í Rússlandi.

AFP-fréttaveitan greinir frá því að einhverjir Nígeríumannanna hafi jafnvel ætlað að gera tilraun til þess að komast á samning hjá rússneskum knattspyrnuliðum.

HM var ekki eintóm gleði og hamingja hjá þessum Nígeríumönnum, …
HM var ekki eintóm gleði og hamingja hjá þessum Nígeríumönnum, sem sumir hafa dvalið í garði sendiráðsins í Moskvu. AFP

Aðrir segjast einfaldlega hafa verið blekktir af svikulum nígerískum ferðaskrifstofum, sem hafi selt þeim ferðir til Rússlands á leiki á HM en aflýst svo fluginu heim, eftir að hafa látið þá greiða fargjaldið.

Einhverjir í hópnum hafa dvalið á Vnukovo-flugvellinum í Moskvu svo dögum skiptir, á meðan aðrir hafa hafst við utandyra í garði nígeríska sendiráðsins í Moskvu.

Talsmaður Muhammadu Buhari, forseta Nígeríu, segir í yfirlýsingu að nauðsynlegar ráðstafanir verði gerðar til þess að koma Nígeríumönnunum heim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert