Íhugar lögsókn vegna ummæla Musks

Elon Musk, forstjóri SpaceX og Tesla.
Elon Musk, forstjóri SpaceX og Tesla. AFP

Breskur hellakönnuður, sem kom að björgun drengjanna tólf á Taílandi, íhugar nú að lögsækja frumkvöðulinn og viðskiptajöfurinn Elon Musk sem kallaði hann barnaperra í færslu á Twitter.

Musk hóf að ausa skömmum yfir Vernon Unsworth á Twitter í gær án þess að útskýra árásir sínar mikið eftir að Unsworth hafði sagt Musk nýta sér harmleikinn í hellinum til að upphefja sjálfan sig. Musk hafði boðið björgunarteyminu afnot af smáum kafbát til björgunarinnar. 

Taílenskir hermenn og alþjóðlegt björgunarlið unnu þrekvirki er þessir aðilar komu drengjahópnum út úr hellinum, þar sem vatn flæddi um þrönga ganga og hellisskúta, í síðustu viku.

Elon Musk eyddi þessari færslu nokkru eftir að hafa birt …
Elon Musk eyddi þessari færslu nokkru eftir að hafa birt hana.

Unsworth hafði aðstoðað björgunarteymið við að kortleggja hellinn. Hann sagði að kafbátur Musks hefði „algjörlega ekkert gagn getað gert“ við þær aðstæður sem uppi voru á vettvangi.

Musk svaraði fyrir sig á Twittter í gær með röð harðorðra tísta og notaði meðal annars orðið „barnaperri“ yfir Unsworth (pedo guy). „Pedo“ er stytting á enska orðinu „paedophile“ sem þýðir barnaníðingur. Á Twitter gagnrýnir maður Musk fyrir að kalla einn af björgunarmönnunum barnaníðing. Því svarar Musk: „Ég skal veðja við þig að það er satt.“

Musk eyddi síðar færslunum og AFP-fréttastofunni hefur ekki tekist að fá viðtal við hann eða yfirlýsingu frá honum vegna málsins.

Unsworh sagði hins vegar í samtali við AFP að hann hefði ekki skoðað tíst Musks að fullu, aðeins heyrt af innihaldi þeirra. Spurður hvort hann hygðist lögsækja Musk vegna ásakananna svaraði hann: „Ef þetta er eins og ég held þá mun ég gera það.“

Hann snýr aftur til Bretlands nú í vikunni og ætlar þá að skoða málið. Hann sagði ljóst að samskiptum þeirra Musks væri ekki lokið. 

Unsworth býr hluta úr ári á Taílandi. Musk sagði m.a. í tístum sínum að hann hefði aldrei sé Unsworth inni í hellunum og að ekki væri rétt að sér hefði verið vísað þaðan út af taílenska hernum eins og Unsworth héldi fram. 

Aðrir björgunarmenn sem tóku þátt í aðgerðunum hafa gagnrýnt Musk harðlega fyrir tístin. Danski kafarinn Claus Rasmussen sagði ásakanir hans „óviðeigandi“ og þakkaði Unsworth fyrir sinn þátt í björguninni. „Það var hann sem kortlagði hellinn fyrir okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert