Var brennd til bana eftir hópnauðgun

Þátttakendur í mótmælum gegn kynferðisofbeldi á Indlandi. Tilkynnt var um …
Þátttakendur í mótmælum gegn kynferðisofbeldi á Indlandi. Tilkynnt var um 40.000 nauðganir árið 2016, en raunveruleg tala er þó talin vera mun hærri. AFP

Lögregla á Indlandi handtók í dag tvo menn sem grunaðir eru um að hafa tekið þátt í hópnauðgun og morði á konu í Uttar Pradesh-fylki um helgina. Indversk yfirvöld segja að talið sé að fimm menn hafi tekið þátt í árásinni, en mennirnir eru sagðir hafa ráðist inn á heimili konunnar snemma laugardagsmorgun. Þar skiptust þeir á að nauðga henni, en að því loknu drógu þeir hana með sér í musteri hindúa þar sem þeir kveiktu í henni.

„Tveir hinna grunuðu voru handteknir snemma á mánudag í næsta héraði og leit stendur yfir að hinum,“ hefur AFP-fréttastofan eftir Radhey Mohan Bhardwaj, lögreglustjóra á staðnum.

Frumrannsókn bendir til þess að mennirnir séu fjarskyldir ættingjar konunnar, sem var 35 ára er hún lést, og að þeir hafi verið ósáttir við kynni hennar af öðrum karlmanni.

Segir lögregla konuna hafa gefið upp nöfn tveggja árásarmannanna í símtali sem hún náði að eiga við eiginmann sinn eftir að henni hafði verið nauðgað, en áður en hún var myrt í musterinu. Lögreglan hafnar hins vegar alfarið ásökunum fjölmiðla um að símtölum konunnar til neyðarlínu hafi ekki verið svarað, heldur segja þeir henni ekki hafa tekist að ná sambandi við neyðarlínuna vegna lélegs símasambands á svæðinu.

Kynferðisofbeldi er dökkur blettur á indversku samfélagi og var tilkynnt um tæplega 40.000 nauðganir í landinu árið 2016. Baráttusamtök gegn kynferðisofbeldi í landinu segja raunverulega tölu þó vera mun hærri, þar sem margir veigri sér við að kæra vegna fordóma í garð fórnarlamba kynferðisofbeldis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert