Beit nefið af gestgjafanum

Jessica Collins hefur verið kærð fyrir líkamsárás, en hún beit ...
Jessica Collins hefur verið kærð fyrir líkamsárás, en hún beit nefið af gestgjafa sínum og gleypti. Ljósmynd/Lögreglan í Houston

Kona nokkur í Texas hefur verið handtekin eftir að hún beit nefið af konu, sem hún var gestkomandi hjá, og gleypti það er hún var beðin um að yfirgefa heimilið.

Konan, Jessica Collins, hefur verið kærð fyrir líkamsárás.

Fórnarlambið, sem vildi ekki láta nafns síns getið, sagði í samtali við KTRK-útvarpsstöðina í Houston að árásin hefði átt sér stað á heimili sínu sl. miðvikudagskvöld þegar komið var heim af barnum.

Collins, sem er vinur nágranna hennar, heimtaði meira áfengi og sígarettur þegar þær komu heim til hennar og réðst síðan á hana þegar hún bað þær um að fara.

Kveðst konan ekki hafa áttað sig á því hversu mikið slösuð hún var fyrr en hún var á leiðinni á sjúkrahúsið. „Ég hringdi í eiginmann minn úr sjúkrabílnum,“ segir hún. „Ég hrópaði á hann, „Ég er ekki með nef. Ég er 28 ára gömul og ég er ekki lengur með nef.“.“

BBC segir konuna, sem ekki er með sjúkratryggingu, nú horfa fram á mikinn kostnað vegna lýtalæknaaðgerðar og að hafin hafi verið söfnun fyrir hana á netinu til að fjármagna nefaðgerðina.

mbl.is