Eldar loga á áttatíu stöðum

Svíar njóta veðurblíðunnar í Stokkhólmi.
Svíar njóta veðurblíðunnar í Stokkhólmi. AFP

Skógareldar loga nú samtímis á áttatíu stöðum vítt og breitt í Svíþjóð. Fólk er beðið að sýna mikla varkárni en er vinsamlega beðið um að hringja ekki í neyðarnúmerið 112 nema í ýtrustu neyð vegna mikils álags. Hitabylgjan sem nú er í Svíþjóð hefur einnig orðið til þess að auka álagið á neyðarlínuna en 14. júlí hringdu um 13 þúsund í hana, að því er fram kemur í frétt sænska ríkisútvarpsins.

Svíar hafa notið aðstoðar Norðmanna við slökkvistarfið og m.a. fengið þaðan sex þyrlur til verksins. Þá munu ítalskar flugvélar, sérútbúnar til slökkvistarfa, koma til Svíþjóðar í kvöld til aðstoðar.

Óvenjuheitt er nú í Svíþjóð og verður svo áfram næstu daga. Hitinn hefur valdið gríðarlegum þurrkum og gróðureldar því kviknað. 

Í frétt Aftonbladet segir að búist sé við því að hitabylgjan vari í að minnsta kosti viku til viðbótar. Hitinn sé víða yfir 26 gráður á daginn og á sumum svæðum hefur hann farið yfir 30 gráður. 

Þá varar veðurstofan við eldingum í mið- og vesturhluta landsins í dag sem enn eiga eftir að auka eldhættuna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert