Hraun þeyttist á bátinn

Gat kom í þak bátsins.
Gat kom í þak bátsins.

23 farþegar í ferðamannabáti slösuðust á Hawaii er glóandi hraunmolar þeyttust á þá. Sprenging varð er hrauntaumur fór út í sjóinn með þeim afleiðingum að hraunið þeyttist upp í loftið og lenti ofan á þaki bátsins. Einn farþegi fótbrotnaði en aðrir hlutu brunasár. Þeir voru fluttir á sjúkrahús til aðhlynningar. Í frétt BBC segir að yfirvöld rannsaki aðdraganda slyssins.

Eldgos hófst í Kilauea-eldfjallinu á Hawaii í maí og hefur gosið staðið linnulaust síðan. Eitraðar lofttegundir streyma upp úr gíg fjallsins en hraunið hóf fyrir nokkru að renna út í Kyrrahafið. 

Ferðamennirnir höfðu farið með bátnum til að fylgjast með hrauninu renna út í hafið. 

Í frétt BBC er viðtal við einn farþeganna sem segir að allt hafi gerst svo skyndilega að enginn tími hafi verið til að flýja af hólmi. 

Einhverjir farþeganna hafa fullyrt að báturinn hafi verið fyrir utan öryggissvæði sem yfirvöld hafa afmarkað í nágrenni þess staðar þar sem hraunið rennur í sjóinn.

Hraunið rennur út í Kyrrahafið.
Hraunið rennur út í Kyrrahafið. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert