„Lífið er ótrúlegt“

Angela Hernandez á sjúkrahúsinu.
Angela Hernandez á sjúkrahúsinu. Af Facebook

Kona, sem hélt til í heila viku á lítilli strönd eftir að bíll hennar hafði farið fram af klettum í Big Sur í Kaliforníu, segist hafa látið sig dreyma um mat sem hana langaði í og sötrað ferskt vatn sem seytlaði frá klettunum til að halda í sér lífinu. Tveir brimbrettakappar komu loks auga á hana. Hún segir frá reynslu sinni í færslu á Facebook.

Angela Hernandez fékk heilablæðingu, brákaði fjögur rifbein og braut bæði viðbeinin er bíll hennar fór fram af klettunum. Þá féll lunga hennar saman. Einnig sólbrann hún alvarlega á höndum, fótum og andliti á meðan hún var í sjálfheldunni.

Þann 6. júlí var Hernandez, sem er 22 ára, á heimleið á bíl sínum. Lítið dýr hljóp í veg fyrir bílinn og beygði hún skyndilega með þeim afleiðingum að hún missti stjórn á bílnum og hann hrapaði um 60 metra fram af klettabrún. „Ég man lítið eftir fallinu,“ skrifar Hernandez, „það fyrsta sem ég man er þegar ég vaknaði. Ég var enn inni í bílnum og ég fann vatn flæða yfir hnén. Mér var illt í höfðinu, ég snerti það og það var blóð á höndum mínum.“

Hún var í fyrstu föst inni í bílnum og allir gluggar lokaðir. Hún braut þá rúðu og komst út. Fljótlega eftir það segist hún hafa sofnað. Er hún vaknaði segist hún fyrst hafa gert sér grein fyrir hvað hafði gerst.

„Ég stóð upp og fann þá mikinn sársauka í öxlunum, mjöðmunum, í bakinu og lærunum. Ég sá ekkert nema grjót, hafið og klettinn sem ég vissi að ég gæti aldrei komist yfir.“

Hún reyndi að komast aftur inn í bílinn því þar geymdi hún vatn en það tókst ekki. „Næstu dagar eru í móðu.“

Fór á klettasylluna daglega

Hún gekk eftir ströndinni og reyndi að finna fólk og klífa klettavegginn. Hún var skólaus og særði fætur sína á grófum sandinum. Hún fann klettasyllu sem hún fór þaðan í frá upp á á hverjum degi til að reyna að láta einhvern vegfaranda vita af sér. Hún reyndi að vera þar svo lengi sem hún þoldi við í sterku sólskininu. 

Þremur dögum eftir slysið fór hún að finna fyrir afleiðingum vökvaskorts. Hún reyndi að safna vatni sem seytlaði út úr klettunum og drakk það til að halda sér á lífi. Allan tímann segist hún hafa reynt að hrópa á hjálp af öllum lífs og sálar kröftum.

„Lög sem ég hafði ekki heyrt í mörg ár fóru að hljóma í sífellu í höfðinu,“ segir hún um líðan sína. „Ég lét mig dreyma um mat sem ég gæti gætt mér á þegar ég myndi finnast og ímyndaði mér hvernig sá sem myndi bjarga mér liti út.“

Hernandez segir að síðasti morguninn á ströndinni hafi verið óvenjugóður. Hún hafði séð stjörnubjartan himininn kvöldið áður. Hún fór að klettasyllu og þar dottaði hún. Þegar ég vaknaði sá ég konu koma gangandi eftir ströndinni.“ Í fyrstu hélt hún að sig væri að dreyma. Hún hóf að öskra á hjálp. Hún hljóp svo til konunnar og manns sem hún var með. „Ég held að þau hafi ekki trúað eigin augum.“

Lögreglan segir að erfitt hafi reynst að leita að Hernandez á svæðinu. Ströndin sé fáfarin og veður hafi spillt fyrir leitinni. 

Hernandez var flutt á sjúkrahús og skrifar á Facebook að þar sitji hún nú og njóti samvista við systur sína. „Við hlæjum saman þar til mig verkjar í brotnu beinin,“ skrifar hún og bætir við: „Lífið er ótrúlegt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert