Misstu næstum af lottóvinningnum

AFP

Arron Walshaw, 32 ára breskur múrari, og unnusta hans, hin 23 ára Ceri Hall, voru stálheppin að hreppa vinninginn í breska lottóinu á dögunum. Minnstu munaði að vinningurinn rynni þeim úr greipum. 

Þau hjúin höfðu unnið frían lottómiða frá fyrri lottóútdrætti en sölustaðurinn var í þann mund að loka þegar Walshaw fór að sækja miðann. 

Walshaw segir að ef ekki hefði verið fyrir ljúfmennsku konu sem hleypti honum fram fyrir sig í röðinni hefði hann sennilega misst af útdrættinum og þar með misst af vinningnum sem nam milljón pundum, eða rúmum 140 milljónum íslenskra króna. 

„Ég hoppaði inn í búð í nágrenninu þar sem ég og ein kona nálguðumst sama afgreiðslumann. Hún hefur séð að ég var á hraðferð því að hún krafðist þess að ég færi fram fyrir hana í röðinni. Þvílíkt gæfuspor sem það reyndist vera,“ segir Walshaw í samtali við BBC.

Parið hafði ekki mikið milli handanna áður en stóri lottóvinningurinn varð þeirra, en þau eru nú að leggja á ráðin um draumabrúðkaupið auk þess sem þau ætla að verja vinningnum í að kaupa hús og bíl. „Við myndum gjarnan vilja hitta þessa konu til þess að þakka henni fyrir að hafa breytt lífi okkar,“ segir Walshaw. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert