Stálu plútóníum úr bílaleigubíl

Plútóníum er mjög geislavirkt og hættulegt efni.
Plútóníum er mjög geislavirkt og hættulegt efni. Af Wikipedia

Plútóníum sem stolið var í Texas í Bandaríkjunum í fyrra er enn ófundið að því er fram kemur í nýrri skýrslu. Efninu var stolið úr bíl starfsmanna á meðan þeir gistu á hóteli. Skýrslan er gefin út af félagasamtökunum Center for Public Integrity en yfirvöld í Bandaríkjunum hafa ekki viljað staðfesta þjófnaðinn opinberlega en heimildarmaður BBC innan orkumálastofnunarinnar þar í landi hefur staðfest að efnið hafi horfið. Hann segir að almenningur sé ekki í hættu. 

Í frétt BBC segir að starfsmenn rannsóknarstofu í Idaho hafi farið til San Antonio í mars í fyrra til að sækja efnið sem nýta átti til rannsókna. 

Plútoníum er eitt hættulegasta efni sem fyrirfinnst á jörðinni. Efnið var til dæmis uppistaðan í kjarnorkusprengjunni sem sprengd var í Nagasaki í síðari heimsstyrjöldinni og varð 70 þúsund manns að bana. 

Starfsmennirnir geymdu efnið í bílaleigubíl sínum fyrir utan hótel sem er í hverfi sem þekkt er fyrir háa glæpatíðni. Er þeir fóru út um morguninn áttuðu þeir sig á því að búið var að brjótast inn í bílinn og stela efninu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert