Fólk hrætt um að eldurinn nálgist bæina

Slökkviliðsbíll á ferð í Karbole í Svíþjóð. Unnið var að …
Slökkviliðsbíll á ferð í Karbole í Svíþjóð. Unnið var að því að slökkva eld á 44 stöðum í landinu í dag. AFP

„Þetta er hérna allt í kringum okkur. Þetta voru fimm eldar síðast þegar ég vissi,“ segir Björn Fannar Björnsson, nemi í málmiðnum, sem er búsettur með fjölskyldu sína í Ljusdal í Gävleborg í Svíþjóð.

Skógareldar geisa nú víða í Svíþjóð og í dag hefur verið unnið að slökkvistarfi á 44 stöðum í landinu, m.a. í nágrenni Ljusdal þar sem Björn Fannar býr. Þá hafa sænsk yf­ir­völd beðið Evr­ópu­sam­bandið um meiri hjálp í bar­átt­unni við eldana. Þegar er ít­alskt lið komið á vett­vang með tvær sér­út­bún­ar flug­vél­ar en yf­ir­völd telja það ekki duga til. 

Björn Fannar segir reykjarlyktina vera rétt svo greinanlega í Ljusdal, en að ekki þurfi að fara langt út fyrir bæjarmörkin til að verða mikið var við reykinn og lyktina sem honum fylgir.

Hann segir bæjarfélagið allt, bæði fyrirtæki og einstaklinga, vera boðið og búið að aðstoða slökkviliðsmennina sem reyna að ráða niðurlögum eldanna. „Margir þeirra eru sjálfboðaliðar, en svo er sænski herinn líka að aðstoða.“ Þá séu sumarhús notuð fyrir slökkviliðsmenn og fólk færi þeim mat og reyni að gera aðstæður þeirra sem bestar. „Síðan er ítölsk flugvél á leiðinni til að aðstoða,“ bætir hann við.


 

Líður illa í reykjarmekkinum

Björn Fannar segir engi, tún og skóga vera að brenna í nágrenninu. „Svo hafa mörg sumarhús brunnið og fólk hefur þurft að flýja. Þannig þurfti til dæmis að rýma 10 hús við Enskogen [sem er í nágrenninu].“ Í smábænum Färila, sem einnig er í nágrenninu, sé reykjarmökkurinn svo mikill að fólki líði illa að vera þar.

Brunarnir nú eru að sögn Björns Fannars með þeim mestu sem orðið hafa í Svíþjóð.

Sjaldan hreyfir vind í Ljusdal, en nú er nokkur andvari sem dugar til að æsa upp eldinn. „Vindáttin og þurrkurinn er hræðileg blanda. Þetta var slæmur dagur í gær og mig grunar að dagurinn í dag eigi eftir að verða verri ef eitthvað er,“ segir hann.

Björn Fannar Björnsson með Alfreð syni sínum. Skógur er framan …
Björn Fannar Björnsson með Alfreð syni sínum. Skógur er framan við hús fjölskyldunnar og eldhættan því mikil. Ljósmynd/Aðsend

Enn sem komið er hafa eldarnir ekki áhrif á daglegt líf fjölskyldunnar. „Það er risastór skógur fyrir framan húsið þar sem við búum og það þarf bara einn kærulausan til að kasta sígarettu og þá fer allt af stað,“ segir Björn Fannar og kveður óvissuna með áframhald eldanna vera hvað versta. Íbúar telja líka margir að sveitarfélagið gæti gert meira til að ráða niðurlögum eldanna og að það eigi að geta fengið aðstoð annars staðar frá. „Það er svo mikil óvissa og það er það versta. Það gætu kviknað eldar hvar sem er og fólk er hrætt um að eldurinn geti nálgast bæina, sérstaklega hér í Ljusdal, Färila eða Järvsö.“ 

Ekki er heldur útlit fyrir rigningu á næstunni. „Ég var að skoða spána fyrir næstu átta daga og þar er engin rigning í kortunum.“

Mikið um minni bruna

Eldar hafa einnig logað í Suður-Svíþjóð, þó að ástandið sé ekki jafnslæmt þar. Sigurdís Hildur Kolbeins hjúkrunarfræðinemi býr í Blekinge í Suður-Svíþjóð og þar hafa eldar kviknað í þurrkunum í sumar. „Það hefur gerst oft að kviknað hafi í á engjum og inni í skógi þar sem ég bý,“ segir Hildur. „Það hefur verið mikið um minni bruna.“

Þyrlur eru notaðar við slökkvistarfið í Hammarstrand.
Þyrlur eru notaðar við slökkvistarfið í Hammarstrand. AFP

Hún segir flesta hafa verið heppna, en að sumir hafi þó þurft þó að yfirgefa heimili sín vegna óhagstæðrar vindáttar m.a. vegna þess að mikið sót hafi borist inn. „Móðursystir mín, sem á sumarhús hérna, hún þurfti að yfirgefa það einn dag vegna eldhættu þegar eldur kviknaði á engi í nágrenninu,“ segir Hildur.

„Ég veit að á öðrum stöðum í Svíþjóð hefur þurft að flytja fólk á brott og síðan eru sumir jafnvel fastir og komast ekki á brott án þyrluaðstoðar,“ segir hún og kveður fólk almennt vera meðvitað um eldhættuna sem fylgi þurrkunum.

Upplýsingarnar berist þó ekki öllum, enda hafi viðvaranir um eldhættu bara verið gefnar út á sænsku og ensku. „Það þyrfti mögulega að bæta við upplýsingum á fleiri málum, því að maður sér alveg fólk sem hefur kannski ekki skilið þessar upplýsingar og er svo t.d. að nota einnota grill,“ segir Hildur.

Sigurdís Hildur Kolbeins segir mikið hafa verið um minni bruna …
Sigurdís Hildur Kolbeins segir mikið hafa verið um minni bruna í Blekinge. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert