Fundu líkamsleifar nær daglega

Lögreglan í Toronto að störfum við landareign Bruce McArthur.
Lögreglan í Toronto að störfum við landareign Bruce McArthur. AFP

Líkamsleifar fundust nær daglega í aðgerðum lögreglunnar í Toronto nýverið á landareign hins meinta raðmorðingja, Bruce McArthur. Fyrst var leitað á svæðinu í byrjun árs og þá fundust líkamsleifar sjö manna. Vegna kulda var leit frestað þar til nú í byrjun júlí. McArthur á þegar yfir höfði sér að átta morðákærur.

Í frétt CNN um málið segir að landareign McArthurs sé að finna í Mallory Crescent-hverfinu í Toronto. Leit stóð yfir frá 4. júlí og þar til nú á föstudag. „Við fundum líkamsleifar nánast á hverjum degi sem við vorum á vettvangi,“ segir Meaghan Gray, talsmaður löreglunnar í Toronto. Ekki er enn vitað af hversu mörgum líkamsleifarnar eru en þær hafa nú verið sendar til réttarmeinafræðings sem mun rannsaka þær. 

McArthur var handtekinn í janúar. Lögreglan segir að hann hafi grafið líkamshluta fórnarlamba sinna í blómapottum á landareigninni þar sem hann vann við garðyrkju.

Líkamsleifar sjö manna fundust snemma árs og í apríl fannst sundurlimað lík þess áttunda, þó ekki á sama stað.

McArthur átti í einhvers konar samböndum við öll fórnarlömb sín, m.a. kynferðislegum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert