OPEC leitar ráðgjafar vegna Trump

OPEC og samstarfsaðilar hafa dregið úr framleiðslu hráolíu frá því …
OPEC og samstarfsaðilar hafa dregið úr framleiðslu hráolíu frá því á síðasta ári, með þeim afleiðingum að verð hefur hækkað. AFP

Samtök olíuframleiðsluríkja, OPEC, leita nú lögfræðilegrar ráðgjafar til þess að verjast tillögu að nýrri löggjöf í Bandaríkjunum sem gæti leitt til þess að hægt yrði að kæra samtökin fyrir samkeppnislagabrot. Þetta herma heimildir Bloomberg.

Lögmenn samtakanna munu á næstu dögum funda með lögmannsstofum, þar á meðal White & Chase LLP, um frumvarp til laga gegn samráði olíuframleiðenda og útflutningsaðila. Samtökin eru nú að móta viðbragsáætlun og leita ráða um hvernig sé best að bregðast við fyrirhugaðri lagasetningu sem myndi heimila bandarískum stjórnvöldum að kæra samtökin fyrir markaðsmisnotkun.

Fundurinn er talinn merki um þann aukna þrýsting sem Bandaríkin beita OPEC og hefur Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, ítrekað gagnrýnt samtökin á Twitter og beðið um að framleiðsla verði aukin. Þá hefur hann meðal annars sakað OPEC um að stuðla að verðhækkunum með ásettu ráði.

Löggjöfin ekki ný hugmynd

Fulltrúadeild Bandaríkjaþings kynnti í maí síðastliðnum drög að frumvarpinu og voru drög öldungadeildarinnar kynnt í þessari viku. Samþykkt frumvarpsins mun hafa í för með sér breytingar á Sherman-samkeppnislögunum frá árinu 1890 sem var beitt til þess að brjóta á bak einokun olíuveldis Johns Rockefellers.

Bandaríkjaþing hefur annað slagið rætt sambærilega lagasetningu frá aldamótum, en bæði George Bush yngri og Barack Obama, fyrrverandi forsetar Bandaríkjanna, hótuðu að beita neitunarvaldi sínu til þess að koma í veg fyrir slíka lagasetningu. Hættan að mati OPEC er að Trump gæti ákveðið að fara ekki eftir fordæmi forvera sinna.

Minni framleiðsla

Aðildarríki OPEC framleiða um það bil þriðjung allrar hráolíu í heiminum og setja samtökin ekki ákveðið verð, heldur ákveða samtökin að auka eða draga úr framboði til þess að hafa áhrif á markaðsverð.

Frá janúar 2017 hafa samtökin ásamt samstarfsaðilum á borð við Rússland dregið verulega úr framleiðslu hráolíu, eða um 1,8 milljónir tunna á dag. Þetta er talið meginorsök þess að olíuverð fór yfir 80 bandaríkjadali á tunnu í maí, hæsta verð í þrjú ár.

Heimildarmenn geta þess að OPEC leiti nú ráðgjafar lögmanna í …
Heimildarmenn geta þess að OPEC leiti nú ráðgjafar lögmanna í Bandaríkjunum til þess að verjast nýrri löggjöf sem er til umræðu meðal bandarískra þingmanna. Ljósmynd/OPEC
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert