Brenna vörur fyrir milljarða árlega

Burberry-mynstrið er heimsþekkt og hefur fyrirtækið átt í vök að …
Burberry-mynstrið er heimsþekkt og hefur fyrirtækið átt í vök að verjast vegna framleiðslu á eftirlíkingum. AFP

Breska tískufataframleiðandinn Burberry eyðilagði óseld föt, fylgihluti og ilmvötn að andvirði 28,6 milljóna punda á síðasta ári. Á síðustu fimm árum hefur Burberry eyðilagt vörur að andvirði meira en 90 milljón punda.

Tilgangurinn? Að verja virði vörumerkisins og að koma í veg fyrir að framleiðsluvörurnar séu seldar ódýrt. BBC greinir frá.

Fleiri tískufataframleiðendur stunda það að eyðileggja vörur sínar í þessum tilgangi, en Burberry segir í tilkynningu að vörur þeirra séu brennd með umhverfisvænum hætti, þar sem orkan sem skapast við bruna varningsins sé virkjuð.

Talsmaður fyrirtækisins segir það leita leiða til þess að minnka það rusl sem fylgir starfseminni, en að fyrirtækið fargi vörum á ábyrgan máta.

Hluti af bransanum

Það að eyðileggja óseldar vörur er hluti af bransanum, hefur BBC eftir Mariu Malone, sem kennir áfanga um tískugeirann við Manchester Metropolitan-háskóla. Hún segir Burberry hafa verið að ná vopnum sínum á undanförnum árum og reynt að bæta ímynd vörumerkisins, eftir tímabil þar sem falsarar „settu Burberry mynstrið á allt sem þeir gátu,“ segir Malone.

„Ástæðan fyrir því að þau gera þetta er svo að markaðurinn sé ekki fullur af afsláttarvörum. Þau vilja ekki að Burbergy-vörur komist í hendurnar á neinum sem getur selt vörurnar á afslætti og dregið úr virði vörumerkisins,“ segir Malone.

Fer fyrir brjóstið á umhverfisverndarsinnum

„Þrátt fyrir háa verðlagningu sýnir Burberry enga virðingu fyrir eigin vörum og erfiðisvinnunni og náttúruauðlindunum sem fara í að búa þær til,“ segir Lu Yen Roloff frá Grænfriðungum.

Hún segir að svo virðist sem fyrirtækið sé að framleiða of mikið og að í stað þess að hægja á framleiðslu sinni, kveiki þau í fullkomlega góðum fötum og vörum.

Roloff bætir við að þetta sé skíta-leyndarmál innan tískubransans almennt og að í þessum efnum sé vörubrennsla Burberry einungis toppurinn af ísjakanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert