Sæta nauðgunum og barsmíðum

Kim Eun-hee æfði tennis allt frá barnsaldri. Þjálfari hennar nauðgaði …
Kim Eun-hee æfði tennis allt frá barnsaldri. Þjálfari hennar nauðgaði henn ítrekað. AFP

Þegar Kim Eun-hee var tíu ára grunnskólanemandi, uppfull af draumum um framtíðina, nauðgaði þjálfarinn henni í fyrsta sinn. Svo gerði hann það aftur. Og aftur. Og aftur.

Stúlkan, sem átti eftir að verða suðurkóreskur meistari, var of ung til að vita hvað var að eiga sér stað. Hún vissi það eitt að hún kveið fyrir ítrekuðum fyrirmælum hans um að koma inn á skrifstofuna í íþróttahúsinu. Hún kveið sársaukanum og niðurlægingunni. 

„Það tók mig mörg ár að átta mig á því að þetta var nauðgun,“ segir Kim í samtali við AFP-fréttastofuna. „Hann hélt áfram að nauðga mér í tvö ár... hann sagði að þetta væri leyndarmál sem við ættum að geyma okkar á milli.“

Vill brjóta þagnarmúrinn

Núna er Kim orðin 27 ára og þetta er í fyrsta sinn sem hún tjáir sig opinberlega um málið. Hún vill brjóta þagnarmúrinn sem umvefur kynferðislegt ofbeldi suðurkóreskra íþróttakvenna sem þjálfarar beita þær. 

Suður-Kórea er líklega best þekkt fyrir tækniþróun og poppstjörnur en þjóðin er líka áberandi á vettvangi íþrótta, sérstaklega í sínum heimshluta. Þar hafa bæði sumar- og vetrarólympíuleikar verið haldnir.

Suðurkóreskir íþróttamenn leggja mikið á sig til að ná langt.
Suðurkóreskir íþróttamenn leggja mikið á sig til að ná langt. AFP

Þrátt fyrir að vera ekki stórþjóð á asískan mælikvarða á eiga Suður-Kóreumenn reglulega vísan stað á verðlaunapöllum íþróttamóta. Þeir skara framúr í bogfimi, taikwondo, golfi kvenna og fleiri greinum.

En að mörgu leyti er stéttaskiptingin mikil og íþróttastofnum og félögum stjórnað af þéttum hópi karla þar sem persónuleg tengsl geta verið jafn mikilvæg og árangur til að komast áfram. 

Flytja ung að heiman

Samkeppnin er gríðarleg og margt ungt fólk hættir í skóla og flyst heiman frá foreldrum sínum til að stunda æfingar. Þeir eyða miklum tíma með jafnöldrum sínum og þjálfurum á nokkurs konar heimavistum, stundum árum saman.

Íþróttabúðir sem þessar eru vinsælar. Þær eiga fyrirmynd sína í fyrirkomulagi sem kommúnistaríki á borð við Kína bjuggu til. Allt er þetta gert til að Suður-Kórea eignist íþróttamenn á heimsmælikvarða. 

En þetta umhverfi býður hættunni heim. Þar þrífst ofbeldi og misnotkun því börn og ungmenni eru alfarið undir hælnum á sínum þjálfara. 

Kóngurinn í ríkinu

„Þjálfarinn var konungurinn í mínum heimi, hann stjórnaði öllu í mínu daglega lífi allt frá því hvenær og hvernig ég æfði í það hvenær ég svæfi og hvað ég borðaði,“ segir Kim. Hún segir þjálfarann hafa barið sig ítrekað og sagt það hluta af æfingaprógramminu.

Þessi umræddi þjálfari var að lokum látinn taka pokann sinn eftir að hópur foreldra kvartaði undan „grunsamlegri hegðun“ hans. En hann var þó ekki útilokaður frá íþróttaheiminum heldur fór til starfa í öðrum íþróttabúðum. Hann fór aldrei á sakaskrá enda mál hans aldrei rannsakað.

Mörg fórnarlömb segja aldrei frá því að þau óttast að þar með verði íþróttaferli þeirra lokið.

Íþróttir eru vinsælar í Suður-Kóreu og mikil áhersla lögð á …
Íþróttir eru vinsælar í Suður-Kóreu og mikil áhersla lögð á að þjóðin skari fram úr öðrum á þeim vettvangi. AFP

 „Þetta er samfélag þar sem þeir sem segja frá eru útilokaðir, lagðir í einelti og sagðir svikarar sem kallað hafa skömm yfir íþróttina,“ segir Chung Yong-chul, íþróttasálfræðingur við Sogang-háskólann í Seoul.

Ofbeldið algengt

Niðurstaða könnunar, sem íþrótta og ólympíunefnd Suður-Kóreu gerði árið 2014, var sú að ein af hverjum sjö íþróttakonum hefði verið beitt kynferðisofbeldi á síðustu tólf mánuðum. Um 70% þeirra leituðu aldrei nokkurrar hjálpar.

„Foreldrar ungra fórnarlamba gefast upp á því að kæra eftir að valdamenn innan íþróttahreyfingarinnar segja við þá: „Viltu eyðileggja framtíð barnsins þíns í íþróttum?“,“ segir íþróttafréttamaðurinn Chung Hee-joon. Einnig reynir íþróttahreyfingin að þakka niður ósæmilega hegðun starfsmanna sinna. Þeir eru einfaldlega fluttir til í starfi. „Íþróttahreyfingin lætur sem hún sjái ekkert svo lengi sem kynferðisbrotamennirnir búa til framúrskarandi íþróttamenn því það að vinna medalíur skiptir öllu - og brot þeirra eru álitin lítið og ómerkilegt gjald sem þarf að greiða í þessu ferli,“ segir Chung.

Sektaður fyrir áreiti

Árið 2015 var þjálfari og fyrrverandi ólympíumeistari í skautahlaupi aðeins sektaður fyrir að káfa á nemendum sínum og fyrir að áreita kynferðislega 11 ára stúlku sem æfði hjá honum.

Choi Min-suk, þjálfari kvennalandsliðsins í krullu, sagði af sér eftir vetrarólympíuleikana í Sochi eftir að keppendur höfðu sakað hann um kynferðislegt áreiti. Hann var skömmu síðar farinn að þjálfa krullu á ný.

Stundum er ofbeldið líkamlegt frekar en kynferðislegt. 

Árangur suðurkóreskra kvenna í golfi er eftirtektarverður.
Árangur suðurkóreskra kvenna í golfi er eftirtektarverður. AFP

Fyrr á þessu ári sakaði ólympíuverðlaunahafinn Shim Suk-hee, þjálfara sinn í skautahlaupi um að hafa kýlt og sparkað í sig ítrekað svo hún þurfti á læknismeðferð í heilan mánuð að halda. Þjálfarinn, Cho Jae-beom, viðurkenndi að hafa barið Shim sem og annan liðsmann ólympíuliðsins til að „bæta frammistöðu þeirra“.

Þoldi ekki þungan andardrátt

Kim vann til bronsverðlauna í tvíliðaleik á landsmóti. En henni leið alltaf illa er heyrði þungan andardrátt keppenda sér við hlið á tennisvellinum því hljóðið minnti hana á þjálfarann sem nauðgaði henni.

Hún hélt samt áfram að keppa í sinni grein og á móti fyrir tveimur árum kom hún auga á hann. Allt fór þá að rifjast upp fyrir henni og martraðirnar úr bernsku, um að hann ætlaði að drepa hana, birtust ljóslifandi. „Ég varð skelfingu lostin að sjá nauðgarann enn vera að þjálfa ungar tennisstúlkur meira en áratug síðar - rétt eins og ekkert hefði gerst.“

Hún segist þá hafa ákveðið að gera allt sem í hennar valdi stæði svo að hann hefði ekki tækifæri til að misnota fleiri litlar stúlkur. Hún kærði hann og hann var í kjölfarið ákærður fyrir brot sín.

„Foreldrar ungra fórnarlamba gefast upp á því að kæra eftir …
„Foreldrar ungra fórnarlamba gefast upp á því að kæra eftir að valdamenn innan íþróttahreyfingarinnar segja við þá: „Viltu eyðileggja framtíð barnsins þíns í íþróttum?“,“ segir íþróttafréttamaðurinn Chung Hee-joon. AFP

Sakfelldur fyrir nauðgun

Fjórar konur til viðbótar sögðu frá sambærilegri reynslu í réttarsalnum og Kim bar sjálf vitni. Málinu lyktaði þannig að í október á síðasta ári var hann sakfelldur fyrir nauðgun og dæmdur til tíu ára fangelsisvistar. „Ég grét og grét, það hellist yfir sorg og gleði,“ segir hún um líðan sína. 

Kim er nú hætt að keppa en tekin til við að þjálfa ung börn í tennis. „Að sjá þau hlæjandi og að njóta þess að spila tennis græðir sár mín,“ segir hún. „Ég vil að þau verði hamingjusamir íþróttamenn, ólíkt því sem ég upplifði. Hver er tilgangurinn með því að vinna til verðlauna á ólympíuleikum og verða íþróttastjarna ef þú verður að þola barsmíðar og misnotkun til að komast þangað?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert