Tvö bitin af hákarli í New York

Börnin böðuðu sig á strönd á Long Island.
Börnin böðuðu sig á strönd á Long Island. AFP

Tvö börn eru slösuð eftir að hafa verið bitin af hákarli við strönd Long Island í New York-ríki í Bandaríkjunum í gær. Hákarlabit eru afar sjaldgæf á svæðinu en síðast var tilkynnt um slíkt atvik fyrir 70 árum. Meiðsli barnanna eru ekki talin alvarleg. BBC greinir frá.

Tólf ára stúlka og þrettán ára drengur voru bitin af hákarli í aðskildum atvikum á strönd Long Island í gær, en þau böðuðu sig í sjónum í nokkurra kílómetra fjarlægð frá hvort öðru. Þegar sjúkraliðar mættu á staðinn til að hlúa að sárum drengsins kom í ljós að tönn hafði orðið eftir í sárinu.

Unga stúlkan, Lola Pollina, segist hafa verið búin að vaða sjóinn upp að mitti þegar hún sá ugga. Þegar hún flúði upp á ströndina sá hún að fótleggur hennar var blóðugur. Hún sá skugga, sem hún telur hafa verið um metri að lengd, í vatninu við hliðina á sér og fann fyrir sársauka áður en hún hljóp úr sjónum.

Á blaðamannafundi sem haldinn var vegna atvikanna tveggja sagði yfirlífvörður á svæðinu að ungi maðurinn sem var bitinn hefði verið mjög hræddur en hugrakkur.

Bundið var um bitsár hans um leið en þegar sjúkraliðar komu á staðinn fjarlægðu þeir sárabindið til að skoða sárið. Í ljós kom að tönn hákarlsins hafði orðið eftir í fæti drengsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert