Fegurðardrottning dæmd til dauða

Ruth Kamande var valin fegurðardrottning á meðan hún beið dóms …
Ruth Kamande var valin fegurðardrottning á meðan hún beið dóms í fangelsinu. AFP

Dómstóll í Kenía hefur dæmt 24 ára fegurðardrottningu til dauða fyrir að myrða kærasta sinn. Ruth Kamande var í maí dæmd fyrir að drepa kærasta sinn árið 2015 með því að stinga hann 25 sinnum. Mannréttindasamtök segja refsinguna ómannúðlega. 

Kamande bar sigur úr býtum í fegurðarsamkeppni fanga á meðan hún beið þess að mál hennar yrði tekið fyrir.

„Ég vil að ungt fólk geri sér grein fyrir því að það er ekki svalt að drepa kærastann eða kærustuna, jafnvel þó að þú hafir orðið fyrir vonbrigðum eða sért pirraður - ekki gera það,“ sagði dómarinn Jessie Lesiit er hún hvað upp refsinguna í dag. „Hins vegar er svalt að láta kyrrt liggja og síðar fyrirgefa.“

Ruth Kamande var dæmd fyrir að myrða kærasta sinn árið …
Ruth Kamande var dæmd fyrir að myrða kærasta sinn árið 2015. AFP

Dómarinn sagði Kamande enga iðrun hafa sýnt og að morðið hefði verið sérstaklega grimmilegt. „Ég held að ef ég myndi ákveða aðra refsingu en dauða þá yrði sú seka gerð að hetju.“

Mannréttindasamtökin Amnesty International segja refsinguna „miskunnarlausa, ómannúðlega og tímaskekkju“.

Lögmaður Kamande segir að ákvörðun dómarans verði áfrýjað. Dauðarefsing samræmist ekki stjórnarskrá Kenía að því er Hæstiréttur landsins komst að árið 2017. Fólk er þó enn dæmt til dauða en enginn hefur verið tekinn af lífi frá árinu 1987.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert