„Græna Danmörk er orðin brún“

Danmörk er alla jafna græn á að líta frá þessu …
Danmörk er alla jafna græn á að líta frá þessu sjónarhorni, en nú er landið brúnt eftir langvarandi þurrka. Gervihnattamynd/Zoom Earth

Þurrkar geisa á Norðurlöndum og Danmörk hefur af þeim sökum skipt um lit, alla vega ef horft er á landið frá lofti. „Græna Danmörk er orðin brún“ segir fyrirsögn fréttar DR, þar sem gervihnattamyndir af Danmörku fyrir og eftir þurrkatíðina eru bornar saman.

Lítið hefur rignt í Danmörku í sumar og hvert hitametið hefur verið slegið á fætur öðru. Yfir 1.000 gróðureldar hafa kviknað í landinu það sem af er sumri.

Danska veðurstofan, DMI, telur áframhaldandi þurrkatíð fram undan. Í mánaðarspá DMI segir að heita og sólríka sumarveðrið haldi áfram, svo langt sem augað eygir.

Eldri gervihnattamynd af grænni Danmörku.
Eldri gervihnattamynd af grænni Danmörku. Gervihnattamynd/Zoom Earth

Þurrkurinn virðist því verða enn verri á næstu vikum.

Veðurstofan segir að júlímánuður virðist ætla að verða mjög þurr og jafnvel eru líkur á að hann verði sá þurrasti frá upphafi mælinga. Ef ágúst verður svo líka þurr, gæti sumarið 2018 orðið það þurrasta í Danmörku fyrr og síðar.

Sjá má gervihnattamynd af Danmörku í eðlilegra árferði hér til hliðar. „Græna Danmörk“ er svo sannarlega horfin í bili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert