Yfirgáfu Bretland eftir árásina

Sergei Skripal og dóttir hans Julia. Þau hafa bæði verið …
Sergei Skripal og dóttir hans Julia. Þau hafa bæði verið útskrifuð af sjúkrahúsi.

Tveir menn, sem grunaðir eru um að hafa eitrað fyrir Skripal-feðginunum í Salisbury á Englandi í mars, yfirgáfu Bretland með áætlunarflugi eftir árásina. Þetta hefur CNN eftir heimildum.

Dulkóðuð skilaboð um brottför þeirra voru send til Moskvu eftir árásina. Bresk stjórnvöld segja að rússnesk stjórnvöld beri ábyrgð á árásinni.

Breska lögreglan hefur mánuðum saman farið í gegnum gríðarlegt magn af upptökum úr öryggismyndavélum, m.a. frá flugvöllum á Bretlandseyjum og frá bænum Salisbury þar sem árásin með eitrinu novichok var gerð í byrjun mars. Andlitsgreiningartækni var beitt og með þeirri aðferð tókst að bera kennsl á tvo menn. Mennirnir ferðuðust undir dulefni. CNN hefur ekki tekist að fá það staðfest að þeir séu rússneskir en breskir fjölmiðlar hafa það eftir sínum heimildarmönnum að líkur séu á því.

Í frétt CNN er rifjað upp að þann 30. mars var gerð leit um borð í vél rússneska flugfélagsins Aeroflot á Heathrow-flugvelli. Á þeim tíma sögðu bresk yfirvöld að um „hefðbundna aðgerð“ hefði verið að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert