Blóðdropi kom lögreglu á sporið

Franska lögreglan fann blóð á vettvangi ránsins. Myndin er úr …
Franska lögreglan fann blóð á vettvangi ránsins. Myndin er úr safni. AFP

Þeir töldu sig örugga en nokkrir blóðdropar komu upp um þá. Fimmtán árum eftir djarft rán í franskri skartgripaverslun hafa ræningjarnir fjórir loks fundist í Serbíu.

Ránið í Belfort bar öll einkenni Bleika pardusins, aðferðar sem alþjóðlegur glæpahringur hefur stundað í um tvo áratugi í skargriparánum. 

Á árunum 1999 til 2015 er þessi ræningjahópur talinn hafa staðið að yfir 380 vopnuðum ránum þar sem skotmörkin eru yfirleitt skartgripabúðir. Verðmæti ránsfengsins hlaupa á hundruðum milljóna evra. 

Tók eina mínútu

Morgun einn í september árið 2003 réðst hópur manna með grímur fyrir andlitum inn í skartgripabúð í Belfort í austurhluta Frakklands. 

Einn miðaði skammbyssu á meðan aðrir brutu gler í sýningarrýminu og stálu skartgripum og úrum áður en þeir flúðu af vettvangi. Ránið tók aðeins um eina mínútu.

Þjófarnir náðust ekki þrátt fyrir umfangsmikla leit. Ekki komst upp um hverjir þeir voru fyrr en árið 2013 er lögreglunni tókst að greina erfðaefni í blóði sem fannst á gleri í versluninni. Með þessum hætti tókst að bera kennsl á tvo ræningja sem báðir eru Serbar. Þeir voru óþekktir í Frakklandi en lýst hafði verið eftir þeim í Austurríki. Með því að fara í gegnum fjarskiptagögn tókst svo að bera kennsla á aðra tvo úr þjófagenginu. Mennirnir fjórir eru kallaðir Zica, Boka, Sasa og Luka.

 Allir eru þeir frá bænumUzice suðvestur afBelgrad. Bærinn var eitt sinn blómstrandi iðnaðarsvæði en það hefur breyst og margir hafa snúið sér að glæpum. Þaðan koma nú margir liðsmenn glæpahringjanna.

Gengin stela skartgripum, selja þá og nota peningana til að …
Gengin stela skartgripum, selja þá og nota peningana til að fjármagna lífsstíl sinn. AFP

Enginn framsalssamningur

 En þó að franska lögreglan hafi nú komist að því hverjir rændu verslunina getur hún lítið aðhafst þar sem ekki er í gildi framsalssamningur milli Frakklands og Serbíu. Þeir voru þó handteknir og leiddir fyrir dómara í heimalandinu á síðasta ári. Þeir neituðu allir sök. Einn þeirra sagði að hafi þeir verið í Belfort á þeim tíma sem ránið var framið hafi þeir verið að stunda næturlífið. Annar sagði að þeir hefðu verið í borginni til að kaupa notaðan bíl.

Boka var nýverið dæmdur í fangelsi fyrir manndráp af gáleysi í bílslysi. Zica og Sasa eru í fangelsi fyrir stuld á úrum í Hamborg í Þýskalandi árið 2014. Þá eru þeir einnig grunaðir um að hafa komið að ránum í Sviss og Hollandi.

Fjármagna eyðsluna

 Glæpamenn af þessu tagi lifa hátt og eyða miklu, segir serbneski saksóknarinn Ljubisa Dragasevic. Þeir eyða miklu fé í mat og drykk, kókaín og kaup á vændi. Þá kaupa þér sér rándýra bíla og föt og dvelja á dýrum ferðamannaaðstöðum. 

 Glæpahringirnir, sem eiga rætur sínar í Serbíu og Svartfjallalandi, einskorða starfsemi sína ekki aðeins við skartgriparán. Í samvinnu við albanska glæpamenn smygla þeir eiturlyfjum til Vestur-Evrópu.

Þar sem framsal á ræningjunum til Frakklands kemur ekki til greina þá vilja frönsk yfirvöld að réttað verði yfir þeim í Serbíu vegna ránsins í Belfort, rétt eins og gert var vegna ránsins í Hamborg. Þá þurfa frönsk yfirvöld að afsala sér málinu til serbneskra kollega sinna. Það má ekki taka tíma því í september verður málið fyrnt er fimmtán ár verða liðin frá því að það var framið. „Allt ætti að gerast eins hratt og auðið er svo að hægt sé að sækja þessa glæpamenn til saka,“ segir serbneski saksóknarinn Gordana Janicijevic. Verði þeir fundnir sekir eiga þeir um fimmtán ára fangelsisdóm yfir höfði sér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert