Eldarnir fara um á ógnarhraða

Eldar í nágrenni Ljusdal.
Eldar í nágrenni Ljusdal. AFP

Skógareldarnir við Ljusdal í Svíþjóð hafa breiðst út um þúsundir hektara á síðasta sólarhring. Mikill vindur er á svæðinu og fór eldurinn um tveggja kílómetra leið á miklum hraða. Eldar brenna nú á um 15 þúsund hekturum á þessum slóðum, segir í frétt Aftonbladet.

Í morgun brunnu eldar á 46 stöðum í Svíþjóð. 

Fjórar franskar og ítalskar slökkviflugvélar eru við störf. Þá aðstoða einnig norskir og danskir slökkviliðsmenn sænska slökkviliðið. Í dag er von á 140 pólskum slökkviliðsmönnum á vettvang.

Um sextíu skógareldar loguðu í Svíþjóð í gær og talsmaður almannavarnastofnunar landsins sagði að ekki væri hægt að slökkva þá stærstu eins og staðan væri núna. Liðið gætu nokkrir mánuðir þar til síðustu eldarnir slokknuðu.

„Fjórir eldanna eru nú skilgreindir sem alvarlegir; þeir eru orðnir svo stórir að ógerningur er að slökkva þá sem stendur,“ sagði Marcus Årskog, talsmaður almannavarnastofnunarinnar. „Það sem við getum gert er að hefta útbreiðslu þeirra þannig að þeir nái ekki til þorpa eða byggðra svæða.“

Stærstu eldarnir loga allir í miðhluta Svíþjóðar, þ.e. Fågelsjö og Lillåsen í Jämtland-sýslu, Kårböle í Gävleborg-sýslu, Brattsjö í Västernorrland og Trängslet í Dölunum. Alls hafa 300 til 500 manns þurft að forða sér af heimilum sínum vegna eldanna, samkvæmt síðustu upplýsingum frá almannavarnastofnuninni. Talið er að um tvær milljónir rúmmetra skóglendis hafi brunnið.

Þurfa að slátra kúm

Þyrlur og flugvélar frá Noregi og nokkrum Evrópusambandslöndum hafa tekið þátt í slökkvistarfinu þar sem eldarnir eru mestir, að sögn fréttavefjar sænska ríkisútvarpsins í gær.

Langvarandi þurrkar og hlýindi hafa verið á stórum hluta Svíþjóðar, auk Danmerkur, Suður-Noregs og Norður-Finnlands. Að sögn veðurfræðinga er ólíklegt að breyting verði á því á næstunni.

Gríðarlega þurrt er á stórum landsvæðum í Svíþjóð.
Gríðarlega þurrt er á stórum landsvæðum í Svíþjóð. AFP

Að frátalinni lítils háttar úrkomu um miðjan júní hefur nánast ekkert rignt í Svíþjóð frá byrjun maí. „Hlýindin voru óvenjumikil í maí í suður- og miðhluta Svíþjóðar og júní var sá hlýjasti í rúm 100 ár syðst á landinu,“ segir Sverker Hellström, veðurfræðingur sænsku veðurstofunnar.

Þurrkarnir hafa valdið skorti á fóðri fyrir búpening og sænskir bændur hafa þurft að grípa til þess ráðs að slátra kúm. „Þetta er mesta erfiðleikatímabil fyrir sænska bændur í rúm 50 ár,“ segir Ulf Wallin, talsmaður samtaka þeirra. 

mbl.is
Silfurlituð Toyota Corolla 2005 árg
Nýskoðaður og góður bíll! keyrður 224 þús. Negld vetrardekk og sumardekk í góðu ...
Húsaviðgerðir
https://www.husco.is...
KERRUR TIL AFGREIÐSLU SAMDÆGURS
Sterkbyggðu HULCO fjölnotakerrurnar, myndir á bland.is og á Facebook = Mex byggi...
* Öll stærstu á einum stað
Þú getur spilað með í yfir 50 stærstu Lottóum heimsins. Í yfir 12 ár hafa lottó...