Handleggurinn stóð upp úr ísnum

Flugvélin fórst í Himalaya-fjöllum árið 1968 og síðan þá hafa …
Flugvélin fórst í Himalaya-fjöllum árið 1968 og síðan þá hafa verið gerðir út margir leiðangrar í leit að þeim látnu. Mynd úr safni. AFP

Frosnar líkamsleifar indversks hermanns hafa fundist á jökli í Himalaya-fjöllum, 50 árum eftir að hann og fleiri en hundrað til viðbótar létust þar í flugslysi. Fjallaleiðangursmenn fundu líkið og einnig brak úr flugvélinni, sem hrapaði í febrúar árið 1968.

„Við gengum fram á mennskan handlegg sem stóð upp úr ísnum. Afganginn af líkinu má svo sjá ofan í jöklinum,“ sagði leiðangursstjórinn Rajiv Rawat við AFP fréttaveituna.

Lík hermannsins fannst í um 5.500 metra hæð, innan landamæra Indlands. Fjallgöngufólkið hafði samband við indverska herinn, sem hefur þegar gert ráðstanir til að ná líkamsleifunum niður af jöklinum.

Þeirra sem fórust í flugslysinu hefur verið leitað í áratugi, með takmörkuðum árangri, en lík hermannsins er einungis fimmta líkið sem finnst á svæðinu. Síðast fannst lík árið 2013, en alls létust 102 í slysinu, þar af 98 hermenn.

mbl.is