Töldu Page hafa unnið með Rússum

Carter Page, fyrrverandi ráðgjafi Donalds Trump.
Carter Page, fyrrverandi ráðgjafi Donalds Trump. AFP

Alríkislögreglan (FBI) taldi að Carter Page, ráðgjafi Donalds Trump Bandaríkjaforseta, hafi „starfað og lagt á ráðin með“ rússneskum stjórnvöldum í aðdraganda forsetakosninganna árið 2016. Þetta kemur fram í skjölum sem nú hafa verið gerð opinber.

Lögð er áhersla á þessi meintu tengsl Page við rússnesk yfirvöld í dómsskjölum vegna öflunar heimildar fyrir því að hlera hann.

Page hefur neitað þessum ásökunum. Trump segir að svo virðist sem að njósnað hafi verið um starfsfólk sitt með ólögmætum hætti.

Heimild til hlerunar fékkst og var hún endurnýjuð af nokkrum ólíkum dómurum upp frá því.

FBI birti gögnin, sem áður ríkti trúnaður um, í nótt, í kjölfar þess að nokkrir nokkur bandarísk félagasamtök fóru fram á það í krafti upplýsingalaga. 

Skjölin sem birt voru eru alls 412 blaðsíður og í þeim er m.a. að finna beiðni um að fá að hafa eftirlit með Page sem og handtöku heimildir í tengslum við rannsókn málsins.

„Alríkislögreglan telur að Page hafi unnið með og lagt á ráðin með rússneskum stjórnvöldum,“ segir umsókn um hlerunarheimild sem skrifuð var í október árið 2016, rétt fyrir forsetakosningarnar. 

Í gögnunum segir einnig að „FBI telji að aðgerðir rússneskra stjórnvalda séu gerðar í samráði við Page og mögulega aðra sem tengjast kosningabaráttu Trumps.“

Trump svaraði fyrir sig á Twitter í dag eins og hans er háttur. Hann segir augljóst af gögnunum að dæma að dómsmálaráðuneytið og FBI hafi blekkt dómsstóla. „svindl!“


Tæpar tvær vikur eru síðan að tólf Rússar voru ákærðir fyrir að hafa gert tölvuárásir í tengslum við forsetakosningar árið 2016. Rannsókn sérstaks saksóknara í málinu, Robert Muellers, hefur leitt til þess að 32 hafa verið ákærðir, aðallega rússeskir ríkisborgarar en einnig menn sem tengjast kosningabaráttu Trumps.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert