Ítalir taka áfram við flóttamönnum

Enzo Milanesi, utanríkisráðherra Ítalíu, og Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands, í …
Enzo Milanesi, utanríkisráðherra Ítalíu, og Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands, í dag. AFP

Ítalir munu áfram taka á móti flóttamönnum sem bjargað hefur verið á sjó þar til sameiginleg stefna hefur verið mótuð fyrir Evrópusambandið um jafna dreifingu milli ríkja þess um móttöku flóttamanna.

Eftir fund með Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands, sagði Enzo Milanesi, utanríkisráðherra Ítalíu, að lönd Evrópusambandsins myndu reyna að móta sameiginlega stefnu um flóttamenn á næstu fimm vikum. „Á meðan munum við tryggja að skip með flóttafólk sem hefur verið bjargað, geti lagst að höfn á Ítalíu,“ sagði Milanesi við fjölmiðla í gær.

Þjóðverjar sýna Ítölum skilning

Milanesi ítrekaði þó að Ítalir litu á það sem forgangsmál að settar yrðu nýjar reglur til að koma í veg fyrir að byrði af flóttamannastraumnum frá Mið-Austurlöndum félli aðeins á eitt land, Ítalíu.

Maas, utanríkisráðherrann þýski, sagðist sýna vanda Ítalíu skilning. „Á sama tíma búumst við við því af öllum ríkjum ESB að þau standi við skuldbindingar sínar. Björgun á sjó er hluti af þessum skyldum,“ sagði hann og lýsti yfir ánægju með sameiginlegan vilja til lausnar á vandanum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert