Aukin hætta á eldi í Suður-Svíþjóð

Slökkviliðsþyrla hleypir vatni úr poka yfir eldum í Mið-Svíþjóð.
Slökkviliðsþyrla hleypir vatni úr poka yfir eldum í Mið-Svíþjóð. AFP

Skógareldar loga nú á 27 stöðum í Svíþjóð. Í fjórum lénum hefur ekki tekist að ná neinum tökum á eldinum og eru þau öll í Mið-Svíþjóð. Miklir eldar loga því á þessum svæðum en ástandið er einna alvarlegast í Dölunum.

Sögulegur hiti og þurrkar hafa verið í Svíþjóð og Skandinavíu allri í sumar. Sænska veðurstofan ráðgerir að hiti í vikunni verði á bilinu 30 til 35 gráður. Nær ekkert hefur rignt í Svíþjóð frá því í maí, utan 13 mm sem féllu um miðjan júní.

Miklir skógareldar hafa geisað í Svíþjóð undanfarna daga. Sögulegir þurrkar …
Miklir skógareldar hafa geisað í Svíþjóð undanfarna daga. Sögulegir þurrkar eru í landinu og hitamet hafa verið slegin. AFP

Samkvæmt endurmati almannavarna í Svíþjóð á áhættu á skógareldum, sem kynnt var í morgun, hefur hætta á nýjum skógareldum í landinu hefði aukist stórlega, einkum í Suður-Svíþjóð. 

Hjálp borist víða að

Barist er við eldinn úr lofti með flugvélum og þyrlum og einnig á jörðu niðri. Sveitir sænska hersins hafa verið kallaðar til hjálpar, en Svíþjóð hefur einnig borist hjálp frá öðrum löndum í Evrópu, t.d. Austurríki, Ítalíu, Danmörku, Þýskalandi og Frakklandi. Frá þessum löndum hefur borist búnaður og mannskapur einnig, hvort tveggja slökkviliðsmenn og hermenn, sérhæfðir í slökkvistarfi. Sjálfboðaliðar hafa einnig lagt hönd á plóg.

Franskir hermenn, sérhæfðir í slökkvistarfi, undirbúa sig fyrir átök við …
Franskir hermenn, sérhæfðir í slökkvistarfi, undirbúa sig fyrir átök við skógareldana í Svíþjóð. AFP

Í gærkvöldi komu til Svíþjóðar 44 slökkviliðsbílar og 139 slökkviliðsmenn frá Póllandi. Í dag bárust svo fregnir af því að portúgalskir slökkviliðsmenn og flugvélar væru væntanleg til Svíþjóðar á næstu dögum. Slökkviliðsþyrlur frá Noregi hafa einnig sveimað yfir svæðum þar sem miklir eldar loga.

Herða viðurlög við brotum gegn eldbanni

Víðtækt bann hefur verið lagt við meðferð elds utandyra um gjörvalla Svíþjóð, þ. á m. miklar takmarkanir við því að fólk grilli. Almannavarnir hafa ítrekað bannið og hvatt fólk enn frekar til að fara eftir því.

Pólskir slökkviliðsmenn á leið til Uppsala. After a rest and …
Pólskir slökkviliðsmenn á leið til Uppsala. After a rest and refueling in Uppsala the Polish firefighters are on their way to central Sweden where they help to put out the major wild fires. / AFP PHOTO / TT News Agency / Anna HALLAMS / Sweden OUT AFP

Margir hafa þó brotið gegn banninu frá því það tók gildi í lok maí. Því hefur lögregla, t.d. í Malmö, tekið að sekta fólk fyrir að nota eld utandyra, einkum fólk sem kveikir upp í grillum. Hingað til hafa óleyfilegir eldar, einkum í grillum, verið slökktir og brot gegn banninu ekki verið skráð. Nú mun lögregla nýta sektarheimildir í auknum mæli. Allt að sex mánaða fangelsi getur legið við brotum gegn banninu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert