Erlendir ríkisborgarar í þýska herinn?

Þýskur skriðdreki.
Þýskur skriðdreki. Ljósmynd/Wikipedia.org

Hugmyndir eru til skoðunar hjá stjórnvöldum í Þýskalandi um að opna þýska herinn fyrir ríkisborgurum annarra ríkja innan Evrópusambandsins. Þetta hefur þýska varnarmálaráðuneytið staðfest við þýska fjölmiðla samkvæmt fréttavef Deutsche Welle.

Fram kemur í fréttinni að báðir stjórnarflokkarnir í ríkisstjórn Þýskalands, Kristilegi demókrataflokkurinn og Jafnaðarflokkurinn, styðja hugmyndina sem sett var fram af þýska hernum vegna aukinna umsvifa hans en jafnaðarmenn vilja hins vegar að erlendum ríkisborgurum, sem gegni herþjónustu í þýska hernum, standi til boða þýskur ríkisborgararéttur að henni lokinni. Að öðrum kosti verði hætta á að þýski herinn yrði að málaliðaher.

Einnig segir í frétt Deutsche Welle að tillögur um aukin fjárframlög til þýska hersins falli iðulega í grýttan jarðveg í Þýskalandi í ljósi forsögunnar. Er þar einkum vísað til framgöngu þýska hersins í síðari heimsstyrjöldinni.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hugmyndir koma upp um að taka erlenda ríkisborgara inn í þýska herinn, en kynnt voru áform fyrir ekki alls löngu um að taka herdeildir frá Tékklandi, Hollandi og Rúmeníu inn í þýska herinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert