Fórnarlömbin valin af handahófi

Lögreglan á vakt við Danforth St. en maður særði 13 …
Lögreglan á vakt við Danforth St. en maður særði 13 og drap eina konu þar í gærkvöldi. AFP

Afar litlar upplýsingar hafa verið veittar af yfirvöldum í Toronto um skotárásina í borginni í gærkvöldi annað en að tveir séu látnir, ung kona og árásarmaðurinn sjálfur. Þrettán eru særðir, þar af átta eða níu ára gömul stúlka. 

Vitni sem fjölmiðlar hafa rætt við segja að árásarmaðurinn, svartklæddur hvítur maður með svarta derhúfu, hafi komið út úr bíl sínum, hlaupið fram fyrir bifreiðina og tekið byssu upp úr tösku sinni og skotið á gesti á veitingahúsum í gríska hverfi borgarinnar. Ekki er upplýst um hvort hann hafi framið sjálfsvíg eða hvort lögreglan skaut hann til bana. 

Að sögn borgarstjórans í Toronto, John Tory, er ljóst að byssur séu orðnar að vandamáli borginni og þær of aðgengilegar. Hann biður fólk samt sem áður að hrapa ekki að ályktunum varðandi tilefni árásarinnar. Skotárásum hefur fjölgað mjög á undanförnum árum en árið 2014 voru þær 177 í Toronto en voru 395 talsins 2017.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert