Forsætisráðherra Möltu hreinsaður af sök

Joseph Muscat, forsætisráðherra Möltu.
Joseph Muscat, forsætisráðherra Möltu. AFP

Forsætisráðherra Möltu, Joseph Muscat, segir að rannsókn á fjármálum hans sýni að hann sé saklaus af ásökunum um að hann hafi gerst sekur um fjármálamisferli. Rannsóknin hefur staðið yfir í eitt ár en ásakanir á hendur honum komu upp í tengslum við birtingu Panama-skjalanna.

Muscat boðaði til kosninga í fyrra í kjölfar þess að hann og fylgdarlið hans, þar á meðal eiginkona hans, Michelle, voru sökuð um að eiga fyrirtæki sem fjallað er um í Panama-skjölunum. Flokkur Muscat fór með sigur af hólmi í kosningunum.

„Í dag hefur réttlætið náð fram að ganga,“ sagði Muscat á fundi með fréttamönnum í gær. Hann segir að rannsóknin sem unnin var af rannsóknardómurum sýni að fyrrverandi leiðtogi stjórnarandstöðunnar, Simon Busuttil, hafi gerst sekur um lygi í þeim tilgangi að komast til valda. 

Skýrslan er alls um 1.500 blaðsíður en Aaron Bugeja dómari leiddi rannsóknina. Skýrslan var gerð opinber í gær, daginn eftir að Bugeja kynnti hana fyrir ríkissaksóknara. Muscat segir að það eina rétta fyrir Busuttil sé að segja af sér þingmennsku og öðrum trúnaðarstörfum. 

Í skýrslunni kemur fram að ekkert bendi til aðildar Muscat, eiginkonu hans, náins vinar og ráðgjafa, Keith Schembri, ferðamálaráðherra, Konrad Mizzi, eða John Dalli, sem fór með heilbrigðismál í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, að grunsamlegum fjármálagjörningum. Meðal annars tengdum Aserbaísjan í gegnum Pilatus-bankann.

Ásakanir á hendur Muscat voru birtar á bloggsíðu blaðakonunnar Daphne Caruana Galizia sem var drepin í bílsprengjuárás við heimili sitt í fyrra.

Eftir kosningarnar í fyrra hét Muscat því að segja af sér embætti ef eitthvað kæmi fram við rannsóknina sem bendlaði hann við ólögmætt athæfi. 

Fjármálaeftirlitið á Möltu frysti eignir Pilatus-bankans og krafðist afsagnar stjórnarformanns bankans, Ali Sadr Hashemi Nejad, í mars, þremur mánuðum eftir að þrír voru ákærðir í tengslum við morðið á Caruana Galizia.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert