Mannskæð árás í Toronto

AFP

Tveir létust, þar af árásarmaðurinn, í skotárás í miðborg Toronto í Kanada í gærkvöldi. Þrettán eru særðir, þar á meðal barn. 

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Toronto var tilkynnt um árásina til lögreglu um klukkan 22 að staðartíma, klukkan tvö í nótt að íslenskum tíma en hún var gerð í gríska hverfi borgarinnar (Greektown).

Samkvæmt færslu lögreglunnar á Twitter er lítil stúlka meðal þeirra sem særðust í árásinni. Í frétt Global News kemur fram að árásarmaðurinn hafi framið sjálfsvíg eftir að hafa skotið á lögreglu.

Lögreglan í Toronto hefur staðfest að ung kona hafi látist í árásinni og eins árásarmaðurinn sjálfur. Lítil stúlka er í lífshættu eftir skotárásina sem var gerð skammt frá Danforth og Pape Avenues. Allir þeir sem særðust í árásinni hafa verið fluttir á sjúkrahús.

Vitni segja í samtali við innlenda fjölmiðla að þau hafi heyrt um 20 skothvelli. Jody Steinhauer segir í viðtali við CBC News að hún hafi verið á veitingahúsi í hverfinu þegar hún heyrði hvelli sem minntu á flugelda. Skömmu síðar hafi gestir á veitingahúsinu verið beðnir um að forða sér úr veitingasalnum og á bak við.

Ríkislögreglustjóraembætti Kanada hefur nýlega lýst áhyggjum af fjölgun skotárása í landinu en þær eru orðnar yfir 200 talsins á árinu. Rúmlega 20 þeirra hafa verið banvænar. 

Lögreglumaður stendur vörð við Danforth St. í Toronto.
Lögreglumaður stendur vörð við Danforth St. í Toronto. AFP
AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert