Tóku tepásu í sjúkraflutningum

Kýr eru álitnar heilagar á Indlandi og hefur færst í …
Kýr eru álitnar heilagar á Indlandi og hefur færst í vöxt að hindúar taki lögin í eigin hendur í nafni kúaverndar. AFP

Lögregla á Indlandi rannsakar nú mál lögreglumanna sem sakaðir eru um að hafa tekið tepásu í stað þess að flýta sér á sjúkrahús með alvarlega særðan mann sem hafði orðið fyrir árás múgs. Maðurinn, Akbar Khan, lést af sárum sínum en múgur réðst á hann í Alvar í Rajastan fylki á sunnudag.  

Kýr eru álitnar heilagar hjá Hindúum á Indlandi og var Khan að flytja kýr í flutningabíl er ráðist var á hann.

Morðið hefur aukið spennu í héraðinu, en fjölmiðlar segja lögreglu hafa stoppað og tekið tepásu og eytt þannig dýrmætum tíma er flytja átti Khan á sjúkrahús. Þá eru lögreglumennirnir sagðir hafa sinnt kúnum fyrst og flutt þær í athvarf fyrir nautgripi áður en Khan var sinnt.

„Efasemdir hafa vaknað um upphafleg viðbrögð lögreglunnar á staðnum,“ hefur AFP-fréttastofan eftir O.P. Galhotra lögreglustjóra í Rajastan. „Teymi hefur verið skipað til að rannsaka aðstæðurnar sem leiddu til hinnar meintu seinkunnar og tengdra mála.

Tveir eru í haldi vegna árásarinnar á Khan.

Ríkisstjórn Indlands hefur verið sökuð um að horfa framhjá auknum fjölda árása hindúa sem taka lögin í eigin hendur og ráðast á múslima, sem eru minnihlutahópur í fylkinu, í nafni kúaverndar. Það er hægristjórn forsætisráðherrans Narendra Modi sem fer með völd í landinu.

Bannað er að slátra kúm í mörgum fylkjum Indlands og í sumum ríkjum er krafist sérstaks leyfis til að mega flytja þær á milli fylkja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert