Í sjálfheldu á milli sjávar og eldanna

Heimili brennur í Mati.
Heimili brennur í Mati. AFP

Þögn umlykur leifar brenndra bíla og dýra sem urðu gróðureldum að bráð í Mati, litlu sjávarþorpi austur af Aþenu í gær. Í morgun var þorpið nánast ekkert nema öskurústirnar einar. Eldarnir hafa dregið sextíu manns til dauða samkvæmt yfirvöldum. Þar af fundust tuttugu og sex einstaklingar látnir á sömu lóðinni í Mati.

Brenndir líkamar fórnarlambanna fundust flestir í fjögurra til fimm manna hópum segir Vassilis Andriopoulos, sjálfboðaliði Rauða krossins á svæðinu, við AFP-fréttaveituna. Ef til vill voru þetta fjölskyldur, vinahópar eða ókunnugir einstaklingar sem reyndu að hjálpast að í örvæntingu sinni við að komast að sjónum sem var aðeins 30-40 metra í burtu. Ung börn voru á meðal hinna látnu.

Slökkviliðsmenn bera lík íbúa Mati sem lést í gróðureldunum í …
Slökkviliðsmenn bera lík íbúa Mati sem lést í gróðureldunum í nótt. AFP

Fjölda er enn saknað 

Samkvæmt björgunaraðilum festust mörg fórnalambanna líklega í sjálfheldu á milli loganna og þrjátíu metra bjargbrúnar við sjóinn þegar þau gerðu tilraun til að komast undan eldinum. Hið minnsta ein stúlka lést þegar hún gerði tilraun til að stökkva fram af bjargbrúninni.  

Íbúar svæðisins hófu í morgun að meta skaðann á svæðinu. Margir leita enn ástvina sinna sem er saknað. Blaðamaður AFP á svæðinu segist meðal annars hafa rekist á konu sem leitaði dóttur sinnar og aðra sem leitaði að eiginmanni og syni. Þetta gæti vel gefið til kynna að tala hinna látnu eigi enn eftir að hækka.

Sjávarþorpið Mati er ekkert nema rústirnar einar.
Sjávarþorpið Mati er ekkert nema rústirnar einar. AFP

Aðalgata þorpsins gefur til kynna þær hörmungar sem íbúar þess hafa þurft að þola síðasta sólahringinn. Trén eru svört af eldunum, sjórinn grár og reyk leggur yfir allt.

Þurftu að bíða í sjónum 

Stella Petridi, 65 ára lífeyrisþegi, átti fimm hunda sem veittu henni félagsskap. Hún var í messu þegar hún tók eftir logunum og flýtti sér heim á leið þar sem hundarnir voru lokaðir inni. Hún náði aldrei að opna dyrnar að heimili sínu sem stóð í björtu báli þegar hana bar að garði. Hún hljóp niður að ströndinni þar sem björgunaraðilar komu henni, ásamt öðrum, í öruggt skjól í bænum Rafina.

Tæplega 700 íbúar Mati voru sóttir af ströndum þorpsins.
Tæplega 700 íbúar Mati voru sóttir af ströndum þorpsins. AFP

„Mati er farinn,“ sagði Evangelos Bournous, bæjarstjóri Rafina. Tugir manna sem misstu heimili sín hafa fengið skjól í leikfimisal í bænum. Margir biðu í sjónum fyrir neðan þorpið í margar klukkustundir eftir hjálp á meðan heimili þeirra brunnu.

Samkvæmt Reuters-fréttaveitunni voru tæplega 700 íbúar sóttir af ströndum Mati með bátum og nítján upp úr sjónum. Fjögur lík fundust í sjónum.

Ekki útilokað að kveikt hafi verið í 

Upptök eldanna eru enn óþekkt en samkvæmt yfirvöldum á svæðinu er ekki útilokað að þeir séu af mannavöldum. Gróðureldarnir eru á meðal þeirra mannskæðustu í álfunni það sem af er öldinni. Árið 2007 létust 77 manns í álíka umfangsmiklum eldum í Grikklandi, ekki svo langt frá svæðinu sem varð logunum að bráð í gær og nótt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert