Niðurrif á eldflaugastöð hafið í N-Kóreu

Yfirvöld í Norður-Kóreu virðast hafa hafist handa við niðurrif búnaðar á þeim svæðum í norðvesturhluta landsins, þar sem unnið var að eldflaugatilraunum. 

BBC segir gervinhnattmyndir af Sohae stöðinni benda til þess að norður kóreskir ráðamenn séu að efna loforðið sem þeir gáfu Bandaríkjastjórn í júní. Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, hafa heitið því að eyðileggja skotsvæði en nefndi ekki hvert þeirra.

Yfirvöld í Norður-Kóreu hafa jafnan haldið því fram að Sohae sé skotsvæði fyrir gervihnetti, en bandarískir embættismenn telja það hafa verið notað fyrir eldflaugatilraunir.

Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, heilsar upp á hermenn. Mydnd úr …
Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, heilsar upp á hermenn. Mydnd úr safni. KCNA

Þeir Trump og Kim undirrituðu, á leiðtogafundi sínum í Singapore í júní, samning um að unnið yrði að afvopnavæðingu kjarnavopna á Kóreuskaga. Var samkomulagið síðar gagnrýnt vegna skorts á upplýsingum um hvenær eða hvernig staðið yrði að afvopnuninni.

Kvaðst Trump í gær vera „mjög ánægður“ með þann gang sem væri í samskiptum Bandaríkjanna og Norður-Kóreu og sagði hann m.a. norðurkóresk yfirvöld ekki hafa staðið fyrir neinum eldflauga- eða kjarnorkutilraunum sl. níu mánuði.

Samkvæmt nýlegum skýrslum bandarískra njósnastofnanna er þó talið að Norður-Kóreumenn kunni að halda kjarnorkuáætlun sinni áfram á laun. Er þar vakinn athygli á að unnið sé að lagfæringum á kjarnorkuauðgunarsvæðinu í Yongbyon og  aukinn kraftur settur í samskonar vinnu annars staðar í landinu.

Gerfihnattamynd af Sohae svæðinu sýnir að niðurrif er hafið. Yfirvöld …
Gerfihnattamynd af Sohae svæðinu sýnir að niðurrif er hafið. Yfirvöld í Norður-Kóreu hafa jafnan haldið því fram að Sohae sé skotsvæði fyrir gervihnetti, en bandarískir embættismenn telja það hafa verið notað fyrir eldflaugatilraunir. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert