Tala látinna hækkar

Að minnsta kosti 74 eru látnir og 187 slasaðir eftir …
Að minnsta kosti 74 eru látnir og 187 slasaðir eftir gróðureldana. AFP

Tala látinna í kjölfar gróðureldanna á Attica-svæðinu í Grikklandi er nú komin upp í 74. Búist er við að talan muni hækka enn frekar. Tæplega 190 eru slasaðir.

Eldarnir eru þeir verstu í Evrópu í meira en áratug. Mannskæðustu gróðureldarnir í álfunni það sem af er öldinni voru einnig í Grikklandi árið 2007. Þá fórust 77 manns. Það er því ekki ólíklegt að þessir eldar verði enn mannskæðari.

Skaðinn er mestur í sjávarþorpinu Mati. Yfir 700 manns hafa þurft að yfirgefa heimili sín og mannfall hefur verið mikið. Björgunaraðilar fundu lík 26 fullorðinna og barna sem virtust hafa verið í faðmlögum er þau urðu eldinum að bráð, aðeins fáeinum metrum frá sjónum.

Mati er hluti af Rafina-svæðinu sem er vinsælt á meðal ferðamanna. Sérstaklega meðal lífeyrisþega og barna, þar sem sumarbúðir á svæðinu eru vinsælar.

Hundruð slökkviliðsmanna hafa barist við eldana eftir að þeir kviknuðu í gær. Vindar og löng þurrkatíð ollu því að eldarnir fóru gríðarlega hratt yfir og erfitt var að ráða við þá. Yfirvöld hafa meðal annars fengið aðstoð frá Ítalíu, Þýskalandi og Póllandi.

Forsætisráðherra Grikklands, Alexis Tsipras, hefur nú lýst yfir þriggja daga þjóðarsorg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert