220 látnir eftir sjálfsmorðsárásir

Frá vettvangi sjálfsmorðssprengjuárásar í Sweida í dag.
Frá vettvangi sjálfsmorðssprengjuárásar í Sweida í dag. AFP

Á þriðja hundrað eru látnir eftir hrinu sjálfsmorðs- og skyndiárása í suðurhluta Sýrlands í dag. Ríki íslams hefur lýst yfir ábyrgð á árásunum sem eru einar þær mannskæðustu sem gerðar hafa verið í landinu.

Samkvæmt mannréttindasamtökunum Syrian Observatory for Human Rights voru árásirnar gerðar á nokkrum stöðum í og í nágrenni Sweida sem er að mestu undir stjórn stjórnarhers Sýrlands. Íslamskar vígasveitir halda þó til á norðausturhluta svæðisins, en blóðbað dagsins kom í kjölfar vikulangrar herferðar, studdrar af Rússum, til að fæla sveitirnar af svæðinu.

Samkvæmt mannréttindasamtökunum voru fjórar sjálfsmorðsárásir gerðar innan borgarmarka Sweida, á meðan aðrir fóru til nærliggjandi þorpa norðan og austan við borgina og skutu íbúa á heimilum sínum.

Að minnsta kosti 221 er látinn og þar á meðal eru 127 almennir borgarar, en 94 hermenn sýrlenska stjórnarhersins.

Hingað til hefur borgin Sweida verið nokkuð einangruð frá stríðinu sem geisað hefur í landinu frá 2011. Árásirnar í dag eru einar þær mannskæðustu sem framdar hafa verið af Ríki íslams í Sýrlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert