Eldarnir slokkna ekki fyrr en snjóar

Slökkviliðsmenn fylla á vatnsbirgðir í Korskogen við Ljusdal í Svíþjóð.
Slökkviliðsmenn fylla á vatnsbirgðir í Korskogen við Ljusdal í Svíþjóð. AFP

Skógareldarnir sem geisa í Svíþjóð slokkna ekki endanlega fyrr en snjóar í október eða nóvember, segir yfirmaður slökkvistarfsins í Gävleborg, þar sem einir af stærstu eldunum loga.

Sænski herinn varpaði í dag sprengjum í Älvdalen til að hefta útbreiðslu eldsins en þar eru slökkviliðsmenn að störfum 13. daginn í röð.

„Það er hægt að losna við súrefnið úr eldinum með hjálp sprengju. Okkur frummat á árangrinum er að aðgerðin hafi virkað vel og gæti komið sér vel í framtíðinni,“ er haft eftir Johan Szymanski, sem fór fyrir aðgerðinni.

Herinn hefur áður notað vopn til að slökkva smávægilega elda á æfingasvæðum hersins en sprengjan nú var einmitt sprengd á svæði sem hefur verið notað í mörg ár til sprengjuæfinga. 

Ekkert lát er á hlýindunum í Svíþjóð en methita hefur verið spáð í landinu á morgun og búist við að hitinn nái 35 gráðum á sumum stöðum. Hitinn mun gera björgunarliðum enn erfiðara fyrir að berjast við eldana, sem þegar eru þeir verstu í landinu í manna minnum.

Eldar loga enn á 42 stöðum í landinu, samkvæmt upplýsingum frá sænsku neyðarlínunni og eru eldarnir sem fyrr stærstir í Gävleborg, Jamtlandi og Dölunum. Bann hefur verið lagt við því að kveikja varðeld og grilla úti í náttúrunni.

Skógrækt Svíþjóðar telur að virði þess skógar sem hefur brunnið sé um 900 milljónir sænskra króna eða sem nemur tæpum 11 milljörðum íslenskra króna.

Hermenn skoða svæðið áður en sprengjunni er varpað.
Hermenn skoða svæðið áður en sprengjunni er varpað. Ljósmynd/Sænski herinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert