„Ertu viss um að hann sé dáinn?“

„Ertu að segja satt? Ertu viss um að hann sé dáinn?“ spyr Salwa sem á erfitt með að trúa því að frændi hennar, sem var sýrlenskur aðgerðarsinni og var handtekinn árið 2011, hafi verið dáinn í að minnsta kosti fimm ár. Þetta er veruleikinn sem blasir við mörgum þeirra Sýrlendinga sem eru að snúa aftur heim og hafa ekki fengið fregnir af ástvinum árum saman.

Salwa er stödd á mantalsskrifstofunni í Hama, borginni sem hún átti heima í áður en hún flúði land. Þetta eru svörin sem hún fékk hjá konunni sem fór yfir beiðni Salwa.

„Hún svaraði mér játandi og sagði þau fá upplýsingar um alla þá sem deyja í fangelsunum,“ segirSalwa í viðtali viðAFP en tekið er fram að þetta er ekki hennar rétta nafn því hún óttast afleiðingarnar fái stjórnvöld vitneskju um hvað hún segir við erlenda fjölmiðla.

AFP

Tugþúsundum er haldið föngnum í ríkisfangelsum í Sýrlandi og segja ættingjar og lögmenn að fangarnir sæti iðulega pyntingum. Þeim er einnig neitað um réttlát réttarhöld og að hafa samband við fjölskylduna.

Eyða aleigunni í að fá upplýsinar um ættingja

Aðstandendur þeirra eru skildir eftir í óvissu og eyða árum og aleigunni í að fara á milli leyniþjónustustofnana til þess að reyna að fá upplýsingar um afdrif viðkomandi.

Að sögn aðgerðarsinna og fjölskyldna þeirra Sýrlendinga sem sitja á bak við lás og slá  hafa yfirvöld þegjandi og hljóðandi uppfært manntalsskrár þar sem fangar eru skráðir látnir. Nær nýja skráningin allt aftur til ársins 2013.

Enn vantar upplýsingar um 80 þúsund fanga

 „Eru þeir á lífi?“ Setning sem heyrist víða í Sýrlandi þessa dagana. Svarið sem ættingjar um það bil 400 fanga hafa fengið á undanförnum mánuðum er „nei“, segir Fadel Abdul Ghany, sem stýrir mannúðarráði Sýrlands. Ráðið áætlar að um 80 þúsund Sýrlendingar séu enn óskráðir og ófundnir þar sem þeim er haldið af stjórnvöldum.

„Áður gáfu stjórnvöld engar upplýsingar um fangana. Þau hefðu ekki lýst þá látna. Nú er því þannig farið en á ósiðmenntaðan hátt,“ segirAbdulGhany.

Þjóðvegurinn milli Homs og Hama.
Þjóðvegurinn milli Homs og Hama. AFP

Manntal Hama var það fyrsta sem var uppfært, síðan kom Homs, Damaskus, Latakia og  Hasakeh. Enn er verið að bæta á listann.

Á þeim sjö árum sem liðin eru frá því stríðið í Sýrlandi hófst hefur Abdul Ghany aldrei áður upplifað að fjölskyldur fengju upplýsingar um örlög fanga á þennan hátt. „Venjulega ferðu með dánarvottorð til skráningar og upplýsir um andlát ættingja - ekki öfugt,“ segir hann.

Eiginkonur, mæður og systur 

Salwa var ekki ein um að grennslast fyrir um ættmenni þennan dag því löng biðröð var á skrifstofunni. Allir vildu fá upplýsingar um ástvini sína. Flestir þeirra sem voru í röðinni eru eiginkonur, mæður og systur fanga. Salwa fór heim með þær fregnir að tveir systursynir hennar, Saad, handtekinn árið 2011 og Saeed sem var handtekinn 2012 væru látnir. Saad var skráður látinn árið 2013 og Saeed lést í fyrra.

Fjölskyldan hefur engin lík að grafa og þorir ekki að syrgja opinberlega í Hama enda fylgjast útsendarar stjórnvalda grannt með. 

Léttir að frétta af andlátinu

Síðasta skiptið sem fjölskylda Islam Dabbas sá hann var seint á árinu 2012. Þá var hann í fangelsi rétt fyrir utan Damaskus. „Hann var í bol með áletruninni „Aðeins frelsi“. Við heyrðum ekki frá honum eftir það,“ segir bróðir hans, Abdulrahman, sem síðar fór til Egyptalands. Fyrr í mánuðinum fékk ættingi þeirra að vita að Islam hafi látist 15. janúar árið 2013 í Saydnaya fangelsinu.  Fangelsi sem er lýst á hryllilegan hátt í skýrslu Amnesty International.  

En Abdulrahman segir að það hafi verið léttir að heyra af andlátinu. Það þýði að bróðir hans hvílir í friði. Fjölskyldan stóð fyrir minningarathöfn umIslam í Egyptalandi í síðustu viku, án líks og langt að heiman. 

AFP

Abdulrahman og móðir hans fengu fréttirnar í gegnum síma og var það faðir hans sem lét þau vita. Hann er enn í Sýrlandi þar sem hann afplánar dóm.

Hvar eru líkin?

Sýrlenskur lögmaður, Noura Ghazi, sem starfar með hópi lögfræðinga sem aðstoðar fjölskyldur fanga, segir að það sé ekki nóg að segja að viðkomandi sé látinn. Hvar eru líkin? Hvernig lést viðkomandi, segir hún.

Aðrir eru fullir efasemda. „Fólk er orðið svo þreytt. Auðvitað efast fólk. Aðrir eru fullir grunsemda. Segja: Hvernig eigum við að trúa því að þetta sé sannleikurinn? Eða eru dagsetningarnar réttar?“ segir Ghazi sem býr í Beirút. 

Eiginmaður hennar, Bassel Khartabil, sem var aðgerðarsinni, hvarf eftir að hann var handtekinn 3. október 2015. Í fyrra fékk Ghazi upplýsingar um að hann væri látinn. „Ég hélt minningarathöfn fyrir hann. Ég klæddist svörtu. Ég hélt að ég hefði fengið að vita sannleikann,“ segir hún.

Í byrjun júlí fór ættingiKhartabil á manntalsskrifstofuna íDamaskus þar sem nýjar upplýsingar voru. Að hann hafi látist 5. október 2015 eða tveimur dögum eftir að hann var tekinn höndum.

AFP

„Þegar við sáum þetta var eins og hann væri aftur dáinn,“ segir Ghazi.

„Það verður ekki aftur snúið. Í meira en tvö ár barðist ég fyrir því að vita örlög hans. Nú mun ég berjast fyrir því sem ég á eftir ólifað að fá lík hans afhent.“

Hundruð sýrlenskra flóttamanna héldu frá Líbanon í gær til heimalandsins. Í líbanska landamærabænum Arsal mátti sjá karla, konur og börn á öllum aldri troðast inn í bíla, smárútur og dráttarvélar hlaðið pinklum. Alls fóru 850 Sýrlendingar yfir landamærin í gær en frá því stríðið hófst hefur nágrannaríkið Líbanon tekið við um 1,5 milljón sýrlenskra flóttamanna. Alls búa 4,5 milljónir í Líbanon.

AFP
Borgin Quneitra.
Borgin Quneitra. AFP
mbl.is
Skrifstofuhúsnæði Bolholti 4
Til leigu er skrifstofurými, alls um 110 fermetrar, í austurenda á 5. og efstu ...
Byggingarstjóri
Allar byggingarleyfisskyldar framkvæmdir krefjast löggilds byggingarstjóra. ...
Bensínhjólbörur
Eigum til bensínhjólbörur með 7.5hp Briggs & Stratton, Drif á öllum, 4 gírar á...
Greinakurlari
Greinakurlari sem drifinn er með bensínmótor. Öflugur og meðfærilegur kurlari w...