N-Kórea enn að búa til kjarnkleyf efni

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði utanríkisnefnd öldungadeildarinnar að Norður-Kórea væri …
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði utanríkisnefnd öldungadeildarinnar að Norður-Kórea væri enn að búa til efni í kjarnavopn. AFP

Norður-Kórea er enn að búa til efni í kjarnavopn. Þetta fullyrti Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, á fundi með þingmönnum í dag. Sex vikur eru nú frá fundi Donald Trump Bandaríkjaforseta og Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, en Trump sagði að þeim fundi loknum að kjarnaógnin í Norður-Kóreu væri liðin undir lok.

„Já þeir eru enn að búa til kjarnkleyf efni,“ sagði Pompeo er hann kom fyrir utanríkisnefnd öldungadeildarinnar í dag.

Bandarísk stjórnvöld sögðu Kim hafa samþykkt á leiðtogafundi þeirra Trump að Norður-Kórea myndi losa sig við öll kjarnorkuvopn sín. „Það stafar ekki lengur kjarnaógn frá Norður-Kóreu,“ sagði Trump á Twitter að fundinum loknum. Forsetinn hefur hins vegar mátt sæta gagnrýni undanfarna daga vegna skorts á framvindu varðandi afvopnunarvæðinguna.

Pompeo fullyrti að afvopnunarvæðingin væri í gangi og að Trump hefði trú á henni. Hann myndi engu að síður fallast á að þessi helstu kerfi sem Bandaríkjunum stafi ógn af séu enn við lýði.

„Ég tel orð hans vísa til þess að verulega hafi verið dregið úr spennunni,“ sagði Pompeo. Hann varaði engu að síður við því að bandarísk stjórnvöld leyfðu viðræðum við ráðamenn í Norður-Kóreu að teygjast út í hið óendanlega.

Sjálfur hafi hann átt í gagnlegum viðræðum við einn helsta aðstoðarmann Kims, Kim Yong Chol. „Framvinda á sér stað og við þurfum að láta Kim Jong-un standa við loforð sín í Singapore,“ sagði Pompeo.

Það sé til að mynda merki um framþróun að gervihnattamyndir sýni að hafist hafi verið handa við að jafna skotsvæði fyrir langdrægar eldflaugar við jörðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert