Spá methita í Svíþjóð á morgun

Frá skóglendi við Ljusdal í Svíþjóð þar sem skógareldarnir hafa …
Frá skóglendi við Ljusdal í Svíþjóð þar sem skógareldarnir hafa verið einna mestir. AFP

Morgundagurinn verður líklega heitasti og þurrasti dagur ársins í Svíþjóð. Varað er við því að hitinn fari yfir 35°C en núverandi sumarmet ársins féll 16. júlí er hiti mældist 34,4°C í Uppsölum.

„Það verður sólríkt, þurrt og hlýtt veður áfram um allt land,“ hefur sænska ríkisútvarpið eftir veðurfræðingnum Lasse Rydqvist. 

Í dag fer hitinn víða yfir 30°C í suðurhluta Svíþjóðar. Um helgina er svo spáð þrumuveðri með eldingum og þar með aukinni hættu á útbreiðslu skógareldanna sem geisað hafa vikum saman í landinu.

Veðurfræðingurinn segir að kalt loft sé nú á leið úr vestri og að líkur séu á að langþráð rigning falli á sunnudag, jafnvel í suðurhluta landsins þar sem þurrkar hafa verið viðvarandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert