Tugir létust í sjálfsvígsárásum

AFP

Nokkrir vígamenn í samtökunum Ríki íslams bera ábyrgð á dauða 40 almennra borgara í suðurhluta Sýrlands undanfarinn sólarhring.  

Þrír frömdu sjálfsvígsárásir í borginni Sweida en aðrir frömdu sjálfsvígsárásir í þorpum í nágrenninu, segir í tilkynningu frá mannúðarsamtökunum Syrian Observatory for Human Rights sem fylgist með átökum í Sýrlandi frá Bretlandi.

Rami Abdel Rahman, yfirmaður Observatory, segir að yfir 30 hafi særst í árásunum en þetta eru mannskæðustu árásirnar í Sýrlandi í nokkra mánuði.

Þrátt fyrir að hersveitir hliðhollar stjórnvöldum í Sýrlandi hafi hrakið vígasveitir Ríkis íslams á brott frá austurhluta landsins í fyrra hafa vígasamtökin ráðist til atlögu gegn stjórnarhernum og erlendum bandamönnum hans undanfarna mánuði. Tugir hafa fallið í þessum átökum. 

Forseti Sýrlands, Bashar Al-Assad, hefur náð yfirráðum yfir nánast öllu Sweida-héraði. Vígasamtökin Jaish Khaled bin al-Walid, sem hafa lýst hollustu við Ríki íslams, eru með um eitt þúsund hermenn í nærliggjandi héraði, Daraa, og Hayat Tahrir al-Sham, en flestir liðsmenn samtakanna eru fyrrverandi félagar í al-Qaeda í Sýrlandi, sem eru með nokkur hundruð vígamenn á sínum snærum í héraðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert