Ólöglegar byggingar lokuðu flóttaleiðum

Varnarmálaráðherra Grikklands, Panos Kammenos, segir að ein af ástæðum þess að afleiðingar skógareldanna í landinu séu jafn alvarlegar og raun ber vitni séu ólöglegar byggingarframkvæmdir sem meðal annars loki flóttaleiðum.

Kammenos ræddi við BBC í dag um skógareldana sem hafa kostað að minnsta kosti 81 mannslíf og gríðarlegt eignartjón. Hann kom til strandbæjarins Mati í dag þar sem ævareiðir íbúar sökuðu stjórnvöld um að hafa ekki sinnt forvörnum. Ef það hefði verið gert hefði manntjónið orðið mun minna að þeirra sögn. 

Kammenos svarar því til að víða hafi fólk byggt húsnæði eða girðingar án heimildar og þetta hafi gert það að verkum að fólk sem flúði eldana komst ekki leiðar sinnar. Enn er tuga saknað. Þeirra á meðal níu ára gamalla tvíburasystra sem eru frá Mati. 

Maria Dionysioti er 67 ára gömul en á aðeins tveimur sólarhringum hefur hún misst fjölmarga ættingja. Hún lýsir sorginni og sársaukanum fyrir blaðamanni Guardian. „Sársaukinn, sársaukinn. Við sitjum uppi með sársaukann án þess að nokkur viti af því.“  

„Barnabarnið mitt var sex mánaða gamalt. Það var ekki einu sinni búið að skíra hann. Hann lést í fangi Margarita og núna er hún á gjörgæslu.“ 

Blaðamaður Guardian ræddi við Dionysioti á sjúkrahúsinu en hún missti tvo nákomna frændur og öll þeirra börn, allar veraldlegar eigur og nú berst dóttir hennar, Margarita, fyrir lífi sínu. 

„Við fundum þau í sjónum um fimm klukkutímum eftir að eldurinn réðst á Mati,“ bætir hún við.

Einn þeirra sakaði Kammenos um að hafa skilið bæjarbúa eftir án aðstoðar en ráðherrann ræddi við bæjarbúa ásamt bæjarstjóranum og yfirmanni flughersins.

Einn bæjarbúa segir í samtali við BBC að hann hafi farið á slökkvistöðina í Mati til að biðja um hjálp en þá vissu slökkviliðsmennirnir ekki einu sinni af eldunum. Annar lýsti því hvernig fólki var ráðlagt að stökkva út í sjó til þess að flýja undan eldinum en á sama tíma voru flestir eldri bæjarbúar í fyrsta lagi ófærir um að komast niður að sjó. Margir þeirra sem lifðu af komust út í sjó og sluppu þannig frá því að verða eldinum að bráð á meðan flest fórnarlömbin komust ekki alla leið að sjónum heldur voru í sjálfheldu í klettabelti þar skammt frá. 

Kammenos er í þjóðern­is­flokkn­um Sjálf­stæðum Grikkj­um, sem er sam­starfs­flokk­ur Syr­iza, flokki Alexis Tsipras í rík­is­stjórn. Hann neitar ásökunum um að ríkisstjórnin hafi brugðist þjóðinni. Heldur sé við íbúa sem hafa lokað vegum niður á strönd að sakast.

„þetta eru glæpir frá fortíðinni,“ segir hann. „Þessi strönd Aþenu, allar þessar fasteignir, meirihluti þeirra án leyfis og þær hafa yfirtekið ströndina án heimildar.“

Bæjarstjórinn í Rafina, Evangelos Bournous, segir að eitt af hverjum fjórum húsum hafi gjöreyðilagst í skógareldunum og helmingi fleiri hafi skemmst að hluta. 

Á gervitunglamyndum má sjá umfang sviðinnar jarðar og þar sést að yfir helmingur af landinu sem eyðilagðist er byggt svæði.

Frétt BBC

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert