Rýmdu búðir rómafólks í Róm

Búðir rómafólksins sem rýmdar voru í dag. Um 300 manns …
Búðir rómafólksins sem rýmdar voru í dag. Um 300 manns hafa búið þar til lengri tíma. AFP

Lögregla á Ítalíu rýmdi í dag búðir rómafólks í Róm þrátt fyrir mótmæli frá Mannréttindadómstól Evrópu. Aðgerðirnar á svæðinu hófust í dögun, en um 300 manns hafa búið á svæðinu. Segja borgaryfirvöld í Róm búðirnar vera heilbrigðisógn.

Lögregla hafnaði fullyrðingum sumra íbúanna um að þeir hefðu verið fluttir á brott með valdi. BBC segir ekki liggja fyrir hvort til standi að finna nýtt húsnæði fyrir fólkið.

Flest rómafólk sem býr á Ítalíu býr við fátækt. Talið er að a.m.k. 130.000 úr þeirra röðum búi í ólöglegum búðum í úthverfum borgarinnar.

Matteo Salvini, innanríkisráðherra Ítalíu, sagði í færslu á Twitter í dag: „Lögmæti, röð, regla og virðing eru ofar öllu!“

Rómafólk í búðunum mótmælti rýmingu búðanna með borðum sem á stóð: „Virginia Raggi [borgarstjóri Rómar] láttu fjölskyldur okkar í friði.“

Mannréttindadómstóllinn í Strassburg hafði hvatt ítölsk stjórnvöld til að hætta við áætlunina um að rýma búðirnar. Ítalska stjórnin sakar rómafólk hins vegar um þjófnað og segir það velja sjálft að vera á jaðri samfélagsins. Margir úr röðum rómafólks kvarta hins vegar undan því að mismunun geri þeim erfitt um vik að fá vinnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert