Sjö milljónir fyrir höfuð leitarhunds

Sobra er sex ára og hefur starfað með lögreglunni síðan …
Sobra er sex ára og hefur starfað með lögreglunni síðan hún var hvolpur. Ljósmynd/Kólumbíska lögreglan

Kólumbískur fíkniefnaleitarhundur hefur verið færður í öruggt skjól í kjölfar þess að fíkniefnagengið Urabenos hafði boðið hverjum þeim sem færði þeim höfuð hundsins andvirði sjö milljóna króna. Hundurinn, Sombra, hafði nýlega þefað uppi tíu tonn af kókaíni í eigu gengisins.

Að sögn BBC hefur Sombra þefað uppi metmagn fíkniefna á ferli sínum með fíkniefnalögreglunni í Kólumbíu. Urabenos-gengið er eitt valdamesta glæpagengi landsins, en Sombra hefur nú verið flutt af aðalyfirráðasvæði gengisins og sinnir nú starfi sínu á flugvellinum í Bogotá.

Flugvöllurinn er talinn öruggari fyrir Sombra þar sem hann er utan áhrifasvæðis fíkniefnagengisins, en lögreglan tekur enga áhættu hvað varðar öryggi hundsins. Ásamt venjulegum starfsfélaga sínum fylgja henni nú öryggisverðir sem tryggja að ekkert komi fyrir hana.

Sombra er sex ára og hefur aðallega starfað við strönd Atlantshafsins í norðvesturhluta landsins. Hafnir á svæðinu eru gjarnan notaðar til þess að flytja mörg tonn af kókaíni til landa Mið-Ameríku og Bandaríkjanna með hrað- og kafbátum.

Stór hluti fíkniefnaflutninganna er á vegum Urabenos, og forsprakki þeirra, Dario Antonio Úsuga, er einn eftirlýstasti maður landsins.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem fíkniefnagengið býður peninga til þess að ryðja óvinum sínum úr vegi. Árið 2012 fann lögreglan bæklinga þar sem hverjum þeim sem myrti lögreglumann voru boðnir 500 dollarar, rúmar 50 þúsund krónur íslenskar.

Sombra hefur starfað fyrir fíkniefnalögregluna síðan hún var hvolpur og hefur þefað uppi fíkniefni, sem hefur leitt til handtöku 245 manns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert