Rannsaka ásakanir í garð Moonves

Les Moonves. Stjórn CBS sjónvarpsstöðvarinnar greindi í dag frá því …
Les Moonves. Stjórn CBS sjónvarpsstöðvarinnar greindi í dag frá því að hún muni rannsaka ásakanir um kynferðislega áreitni á hendur honum. AFP

Stjórn CBS sjónvarpsstöðvarinnar greindi í dag frá því að hún muni rannsaka ásakanir um kynferðislega áreitni á hendur Les Moonves, framkvæmdastjóra CBS. Dagblaðið New Yorker er sagt vera með grein í vinnslu um hegðun Moonves í garð kvenna.

New York Times segir Moonves ekki vera nefndan á nafn í yfirlýsingunni, en hún var birt eftir að Hollywood Reporter birti grein þar sem fullyrt var að New Yorker væri að undirbúa birtingu greinar þar sem fjallað sé um ásakanir um kynferðislega áreitni í garð Moonves. Hlutabréf í CBS féllu um rúm 6% eftir að frétt  Hollywood Reporter  birtist.

Í yfirlýsingu stjórnarinnar segir að „allar ásakanir um misferli séu teknar alvarlegar“ og að allar fullyrðingar um brot á stefnu fyrirtækisins verði rannsakaðar.

„Rannsóknin tekur til nýlegra ásakana sem ná nokkra áratugi aftur í tímann. Að lokinni rannsókninni mun stjórnin fara yfir niðurstöðurnar og grípa til viðeigandi aðgerða,“ sagði í yfirlýsingunni.

Moonves, starfaði áður sem leikari en hefur síðan átt farsælan stjórnunarferil hjá CBS. Hann á nú í lagadeilu við Shari Redstone, sem á meirihluta í fyrirtækinu. Hafa Moonves og stjórn CBS höfðað mál gegn Redstone til að reyna að koma í veg fyrir að hún sameini CBS Viacom, sem hún á einnig meirihluta í.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert