Segja „sebrahestinn“ málaðan asna

Er þetta asni eða sebrahestur?
Er þetta asni eða sebrahestur?

Orðatiltækið úlfur í sauðargæru hefur fengið nýja merkingu: Forsvarsmenn dýragarðs í Egyptalandi eru sakaðir um að hafa reynt að blekkja gesti með því að mála rendur á asna og láta þannig líta út fyrir að um sebrahest sé að ræða.

Frá þessu er greint á vef bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar CNN.

Yfirvöld dýragarðsins harðneita þessum ásökunum og segja að um raunverulegan sebrahest sé að ræða. 

Í frétt CNN greinir Mahmoud Saran frá því að hann hafi farið í dýragarðinn skömmu eftir að hann var opnaður. Þar segist hann hafa komið auga á furðulega skepnu. Hann segir að nokkur atriði hafi vakið forvitni sína, m.a. það að svört málning hafi lekið neðan við augu dýrsins. Grunsemdir hans hafi því vaknað um að ekki væri allt sem það sýndist. Einnig segir hann að dýrið hafi ekki verið á stærð við sebrahest og að augu þess og eyru hafi bent til þess að um aðra dýrategund væri að ræða.

Hann birti því mynd af hinum meinta sebrahesti á Facebook og vildi vita hvað öðrum fyndist um málið.

Viðbrögðin létu ekki á sér standa og færslunni var dreift margoft og víða.

Dýragarðurinn er í Kaíró og segja þeir sem þar stjórna að Mahmoud sé á villigötum. „Þetta er sebrahestur og hann er ekki málaður,“ segir Mohammed Sultan í samtali við egypska sjónvarpsstöð.

Talsmaður dýraverndunarsamtakanna PETA er á annarri skoðun og segir það slæma meðferð á dýrum að úða málningu á asna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert