Besta vörnin að víkka út landnemabyggðirnar

Til átaka kom í þorpinu Kobar þegar ísraelski herinn stóð …
Til átaka kom í þorpinu Kobar þegar ísraelski herinn stóð fyrir rassíu á þorpið í kjölfar dráps á ísraelskum manni. AFP

Varnarmálaráðherra Ísraels segir bestu aðferðina, til að stöðva frekari árásir á Ísraela á hernumdu héruðunum á Vesturbakkanum, vera að víkka enn út landnemabyggðir þar, að því er BBC greinir frá.

Ráðherrann, Avigdor Lieberman, tilkynnti í gær að 400 íbúðarhús yrðu reist í Adam, sem er í nágrenni Ramallah, þar sem palestínskur unglingur stakk ísraelskan mann til bana á fimmtudag. Unglingurinn, sem einnig særði tvo, var skotinn til bana.

Landnemabyggðir á Vesturbakkanum eru álitnar ólöglegar samkvæmt alþjóðalögum, en ísraelsk stjórnvöld draga þær fullyrðingar í efa.

Fórnarlambið hét Yotam Ovadia og var 31 árs. Árásarmaðurinn hét Mohammed Dar Youssef, var 17 ára gamall og kom frá þorpinu Kubar að sögn palestínskra fjölmiðla. Hersveitir Ísraela stóðu fyrir rassíu á þorp Youssef á föstudag og kom til átaka við mótmælendur. Sagði herinn mótmælendur hafa kastað grjóti og eldsprengjum, auk þess að velta brennandi dekkjum í átt að hersveitum sem svöruðu með táragasi.

Nokkuð hefur verið um það frá því síðla árs 2015 að palestínskir árásarmenn sem starfa einir standi fyrir hnífa- eða skotárásum á Ísraela, eða aki þá niður.

Tugir Ísraela hafa farist í slíkum árásum sl. þrjú ár, en um 300 Palestínumenn hafa verið drepnir á tímabilinu og segja ísraelsk stjórnvöld þá flesta hafa verið árásarmenn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert