Dauði hjólreiðamanna mögulegt hryðjuverk

Tveir Bandaríkjamenn, Svisslendingur og Hollendingur fórust þegar ekið var á …
Tveir Bandaríkjamenn, Svisslendingur og Hollendingur fórust þegar ekið var á þá í gær í Danghara-héraðinu í Tajikistan í gær. Kort/Google

Fjórir erlendir hjólreiðamenn létust er bíl var ekið á þá í Tajikistan á sunnudag. Reuters-fréttastofan hefur eftir yfirvöldum í Tajikistan að mögulega sé um hryðjuverkaárás að ræða.

Tveir Bandaríkjamenn, Svisslendingur og Hollendingur fórust þegar ekið var á þá í gær í Danghara-héraðinu, sem er um 70 km suðaustur af höfuðborginni Dushabne.

Þrír ferðamenn til viðbótar, Svisslendingur, Frakki og Hollendingur, slösuðust og þá var einn þeirra með stungusár, samkvæmt upplýsingum Reuters. Ökumaður bílsins er sagður hafa ekið á brott.

Öryggislögreglan í Tajikistan, sem rannsakar nú málið, er sögð hafa drepið fjóra þar á meðal einn sem sagður er hafa veitt viðnám gegn handtöku. Þá er fimmti maðurinn í haldi lögreglu.

„Við erum að skoða allar mögulegar útgáfur,“ sagði innanríkisráðherrann Ramazon Rakhimzoda á fundi með fréttamönnum. „Slys, rán og hryðjuverk.“

Meðal þeirra sem féllu fyrir hendi lögreglu var eigandi bílsins sem lögregla telur hafa ekið á hjólreiðamennina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert