Loka götum til að mótmæla Uber

Leigubílar teppa umferð á Castellana-breiðgötunni í Madríd.
Leigubílar teppa umferð á Castellana-breiðgötunni í Madríd. AFP

Leigubílstjórar á Spáni hafa tekið höndum saman í mótmælaaðgerðum gegn nútímaleigubílafyrirtækjum (skutlfyrirtækjum) á borð við Uber og Cabify. Bílstjórarnir segja að fyrirtækin ógni lífsviðurværi þeirra og setji mörg þúsund störf leigubílstjóra í hættu. Krefjast þeir þess að ríkisstjórnin setji takmarkanir á fjölda bílanna.

Til að vekja athygli á málstað sínum hafa margir leigubílstjórar teppt umferð á stofnæðum í stærstu borgum landsins, Madríd og Barcelona, með því að stöðva bíla sína þar.

Fulltrúar Uber og Cabify funda með spænskum ráðamönnum síðar í dag og vilja verkalýðsfélög leigubílstjóra að stjórnvöld framfylgi lögum sem kveða á um að aðeins eitt leyfi til skutlþjónustu skuli vera til staðar fyrir hver þrjátíu leigubílaleyfi.

„Uber og Caibify stefna leigubílabransanum í hættu og með því 130.000 störfum,“ segir í tilkynningu frá verkalýðsfélaginu, en þar segir einnig að samkeppnin við skutlfyrirtækin sé ósanngjörn.

Verkfallsaðgerðirnar hófust í Barcelona á miðvikudag eftir að spænsk stjórnvöld áfrýjuðu ákvörðun bæjarstjórnar Bacelona sem hafði takmarkað fjölda leyfa hjá leigubílafyrirtækjum, sem taka við bókunum gegnum snjallsíma (eins og Uber).

Aðgerðirnar hafa síðan dreifst til annarra borga á borð við Madríd, Valencia, Bilbao og Sevilla.

Myllumerkið #TaxiEnHuega (Leigubílar í verkfalli) hefur farið hátt á Twitter …
Myllumerkið #TaxiEnHuega (Leigubílar í verkfalli) hefur farið hátt á Twitter á Spáni. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina