Varð fyrir árás fyrir að svara áreitni

Árásin náðist á öryggismyndavél fyrir utan kaffihús.
Árásin náðist á öryggismyndavél fyrir utan kaffihús. Skjáskot/YouTube

Tuttugu og tveggja ára gamall franskur háskólanemi, Marie Laguerre, var slegin í andlitið af vegfaranda í norðausturhluta Parísar eftir að hún bað manninn um að hætta að áreita sig. Myndband af atvikinu hefur nú verið skoðað rétt tæplega milljón sinnum.

Laguerre deildi myndbandinu sem náðist á öryggismyndavél fyrir utan kaffihúsið þar sem atvikið átti sér stað og sagði hún í útvarpsviðtali fyrr í dag frá upplifun sinni af atvikinu. „Ég get ekki þagað og við getum ekki verið þögul.“

Myndbandið fellur að mörgu leyti saman við ný lög sem jafnréttismálaráðherra Frakklands, Marlène Schiappa, segir að taki gildi í haust og snúa að upptöku sekta fyrir kynferðislega áreitni á götum úti.

Laguerre segist hafa verið á leið sinni heim úr vinnu á þriðjudaginn í síðustu viku í nítjánda umdæmi Parísar þegar maðurinn byrjaði að kalla til hennar niðrandi ummæli.

„Þetta var ekki í fyrsta skiptið þennan dag, í þessari viku eða þessum mánuði, þetta var búið að byggjast upp. Ég varð reið og sagði „þegiðu.“ Ég hélt að hann myndi ekki heyra þetta en hann gerði það samt,“ sagði hún í samtali við franska sjónvarpsstöð.

Þá bætti hún við að maðurinn hafi orðið reiður og kastað að henni öskubakka sem hæfði hana þó ekki. Eftir að hafa skipst á móðgunum um stund gekk maðurinn svo að henni og sló hana í höfuðið.  

Saksóknarar í París hafa brugðist við árásinni á Laguerre með því að hefja rannsókn á kynferðislegri áreitni og vopnuðu ofbeldi. Enn hefur ekki tekist að bera kennsl á eða handsama manninn sem veittist að Laguerre eftir því sem fram kemur á vef BBC.

Myndband af árásinni má sjá hér að neðan. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert