Vöknuðu við kengúruinnbrot

Kengúran fær nú aðhlynningu hjá náttúrulífssamtökum vegna sára sinna.
Kengúran fær nú aðhlynningu hjá náttúrulífssamtökum vegna sára sinna. Ljósmynd/Manfred Zabinskas

Fjölskylda í Ástralíu hrökk upp með andfælum á sunnudagsmorgun eftir að kengúra braut sér leið inn á heimili hennar í gegnum rúðu. Kengúran gekk því næst berserksgang á heimilinu, þar til fjölskyldunni tókst að loka hana af inni á baðherbergi og kalla til aðstoð.

Fjölskyldan slapp frá uppákomunni án nokkurra meiðsla, en kengúran skarst hins vegar á bæði fótum og þófum.

BBC hefur eftir Manfred Zabinskas hjá áströlskum náttúruverndarsamtökum, sem losaði kengúruna úr prísundinni, að atvikið megi rekja til þess að íbúabyggðir séu farnar að keppa við kengúrur um landsvæði.  

Zabinskas segir kengúruna hafa verið „frekar uppgefna“ er hann kom að henni á baðinu. Hann gaf henni því næst deyfilyf og flutti hana á brott.

„Fjölskyldan hafði verulegar áhyggjur af henni, af því að það var blóð út um allt,“ sagði Zabinskas.

Kengúran var karldýr af miðstærð að hans sögn, um 30 kg, og hafði valdið skemmdum á innbúi auk þess sem hún braut aðra rúðu er hún reyndi að komast út aftur.

Atvikið átti sér stað í útjaðri Deer Park-úthverfisins sem er í nágrenni kengúrubyggðar.

„Hún hefur verið dauðhrædd og hefur hlaupið um af algjörri örvæntingu í hverja þá átt sem leit út fyrir að leiða heim aftur. Þess vegna hefur hún farið í gegnum rúðuna,“ sagði Zabinskas og kvað kengúrur eiga það til að lenda í vanda í úthverfum þegar byggð stækki yfir á þeirra landsvæði.

Kengúran hlýtur nú meðhöndlun við sárum sínum hjá náttúrulífssamtökum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert