11 farast í flóðum í Búrma

Íbúar í Bago-héraði flýja hér flóðin með barn. Margir halda …
Íbúar í Bago-héraði flýja hér flóðin með barn. Margir halda á brott fótgangandi, en aðrir útbúa sér fleka til að reyna að komast á brott. AFP

Tæplega 120.000 manns hafa hrakist frá heimilum sínum í kjölfar mikilla flóða í Búrma (Mijanmar). Flóðin hafa þegar kostað 11 manns lífið og hafa fjölmargir flúið flóðasvæðin í örvæntingu með börnin á öxlunum.

AFP-fréttastofan hefur eftir embættismanni í Búrma að 118.000 manns hafi nú leitað skjóls í 285 athvörfum, en að tala látinna hafi hækkað. 11 séu nú látnir, þar af þrír hermenn, og óttast sé að tala látinna eigi eftir að hækka enn frekar.

Aurlitað flóðavatnið nær nú víða upp að húsþökum og hefur þurrkað út ræktarland í fjórum héruðum. Vinna yfirvöld nú að því hörðum höndum að setja upp skýli fyrir þá sem hafa þurft að flýja, en miklar rigningar halda nú áfram á þessum slóðum.

Reyna að flýja fótgangandi og á flekum

Björgunarmenn á bátum reyna að bjarga fólki úr flóðavatninu í Hpa-an in Karen-fylkinu. Sumir íbúar reyna að komast á brott á eigin spýtur m.a. með því að búa til fleka eða með því að fara fótgangandi út í strauminn með börnin á herðunum og veraldlegar eigur í plastpokum.

„Það kunna fleiri að hafa farist. Við erum enn að safna upplýsingum,“ sagði Phyu Lei Lei Tun, yfirmaður í félagsmálaráðuneytinu. „Vatnið er tekið að sjatna á sumum stöðum, en við vitum ekki hversu lengi hörmungarnar munu vara.“

Staðfest hefur verið að fimm hafi farist er skriða féll af völdum rigningar í bæjarfélaginu Kawthaung í suðurhluta Búrma.

Brottflutningur er enn í gildi á mörgum svæðum sem hafa orðið illa úti í flóðunum og þá flæða 36 stíflur og uppistöðulón yfir bakka sína.

Svæðið í kringum Mekong-ána, sem m.a. rennur í gegnum Búrma, hefur orðið sérstaklega illa fyrir barðinu á monsúnrigningunum það sem af er þessu ári með tilheyrandi flóðum og eyðileggingu sem neytt hefur þúsundir til að flýja heimili sín.

Björgunarsveitir bera hér lík manna sem létust í skriðu í …
Björgunarsveitir bera hér lík manna sem létust í skriðu í Kachin-fylki. Vinna yfirvöld nú að því hörðum höndum að setja upp skýli fyrir þá sem hafa þurft að flýja. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert