Sáu sakborninginn hjóla á ógnarhraða

Lögreglumenn á vettvangi í Varhaug á mánudagsmorgun.
Lögreglumenn á vettvangi í Varhaug á mánudagsmorgun. Ljósmynd/Marius Vervik/VG

Unglingur, sem sagður er eitt lykilvitna lögreglu í rannsókninni á láti Sunnivu Ødegård, segir í nafnlausu viðtali við Verdens Gang að hann og fleiri á hans reki hafi séð 17 ára gamla drenginn sem grunaður er um ódæðið hjóla á ógnarhraða fram hjá sjoppunni Mix Bø’en í Varhaug á milli kl. 23:20 og 23:30 á sunnudagskvöld.

Það er um klukkustund eftir að síðast heyrðist til hennar á lífi.

Sakborningurinn hefur verið úrskurðaður í tveggja vikna gæsluvarðhald. Þetta staðfesti réttargæslumaður fjölskyldu Sunnivu, Harald Øglænd, við NRK í dag. Hann sagði einnig að fjölskyldan óskaði svara, en að ekki væri víst að þau fengjust þar sem sá grunaði játaði ekki.

Skrítið hvað hann hjólaði hratt

Unglingunum þótti atferli sakborningsins undarlegt, því hann stoppaði ekki við sjoppuna, sem er aðalsamkomustaður unglinga í Varhaug, til þess að heilsa gömlum skólafélögum sínum.

Er vitnið heyrði svo af láti Sunnivu í gær segist það strax hafa áttað sig á því að mögulega ætti sakborningurinn hlut að máli, sökum þess hve hratt hann hjólaði í burtu af svæðinu.

Lögregla vildi ekki tjá sig við Verdens Gang um frásögn vitnisins á þessum tímapunkti, en VG veit þó að lögregla hefur fengið upptökur úr öryggismyndavélum frá Mix-versluninni, sem er sem áður segir aðalsamkomustaður ungmenna í Varhaug, þar sem 3.000 manns búa.

Móðir sakborningsins í salnum í dag

NRK greinir jafnframt frá því að sakborningurinn hafi setið í réttarsal í gráum bol, gráum joggingbuxum og bláum skóm. Hann er sagður hafa horft beint fram og haft sig hljóðan á meðan fjölmiðlar voru inni í salnum. Hann sat við hlið lögmanns síns og þrír lögregluþjónar beint fyrir aftan þá.

Tor Inge Borgersen, verjandi sakborningsins, vildi ekki ræða við fjölmiðla eftir gæsluvarðhaldsúrskurðinn, en móðir hins grunaða sat einnig í réttarsalnum.

Lokað þinghald

Dómarinn í málinu ákvað að þinghald yrði lokað, þar sem það að opna dyrnar fyrir fjölmiðlum á þessu stigi málsins gæti mögulega spillt fyrir rannsókn lögreglu.

Dómstóllinn telur það einnig nauðsynlegt til þess að vernda friðhelgi einkalífs hins grunaða, sem er barn að aldri. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert